Strákarnir okkar áttu ekki roð í sænska landsliðið í vináttulandsleik í handbolta sem fram fór í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld, en heimamenn unnu sannfærandi sigur, 30-24.
Ísland komst 2-0 yfir og hafði undirtökin fyrstu mínúturnar, en Svíar náðu fljótt undirtökum í leiknum og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14-10.
Í þeim síðari héldu heimamönnum engin bönd og komust þeir mest tíu mörkum yfir 26-16. Uppstilltur sóknarleikur Íslands var slakur og varnarleikurinn nánast ekki til staðar.
Síðustu mínúturnar náðu strákarnir aðeins að klóra í bakkann en sigur Svía hefði hæglega getað verið stærri.
Íslenska liðið spilaði án fjögurra lykilmanna í kvöld, en þeir Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Alexander Petersson og Arnór Atlason voru allir hvíldir.
Leikmenn sem eru að reyna að vinna sér inn sæti í lokahópnum fengu að spreyta sig í kvöld, en Aron Kristjánsson mun líklega velja lokahópinn eftir leikinn í kvöld.
Taka verður mið af, að liðin mætast aftur í riðlakeppni HM 2015 þar sem þau eru einnig í riðli með Alsír, Frakklandi, Tékklandi og Egyptalandi.
Strákunum skellt í Svíþjóð

Tengdar fréttir

Fjórir lykilmenn hvíla gegn Svíum í kvöld
Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari hefur tilkynnt hópinn fyrir leikinn gegn Svíum í Kristianstad í kvöld.

Þetta mót mikilvægt til að gera okkur klára fyrir stóra slaginn
Landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson er nokkuð bjartsýnn viku fyrir HM í Katar enda lítur út fyrir að hann komist til Katar með sitt sterkasta lið. Hópurinn verður líklega skorinn niður eftir leik kvöldsins gegn Svíum.

Lærisveinar Guðmundar pökkuðu Slóvenum saman
Danir líta vel út fyrir HM í handbolta, en þeir unnu stórsigur gegn Slóvenum í kvöld.