Lífið

Þjóðin er fjórtándi jólasveinninn

 Þeir Fannar og Guðmundur segja leikinn snúast um jólaandann og það að gleðja.
Þeir Fannar og Guðmundur segja leikinn snúast um jólaandann og það að gleðja. Vísir/Valli
„Þetta snýst um að finna hinn sanna jólaanda og gefa einhverjum sem þú þekkir ekki góða jólagjöf,“ segir Fannar Guðmundsson sem ásamt félaga sínum, Guðmundi Páli Líndal, hefur hrundið af stað leynivinaleiknum Íslenski leynijólasveinninn.

„Okkur datt í hug að þetta væri tilvalið til þess að sameina þjóðina og gera hana að fjórtánda jólasveininum,“ segir Fannar. Hugmyndin kviknaði út frá leynivinaleikjum sem hafa verið vinsælir í skólum og á vinnustöðum undanfarið. „Þú skráir þig hjá okkur og segir eitthvað aðeins frá þér. Þú færð síðan úthlutað einu nafni með lýsingu og út frá því gefur þú viðkomandi gjöf,“ segir hann.

Skráning stendur yfir til 17. desember en þann 18. fá allir úthlutað einu nafni sem þeir þurfa að senda gjöf fyrir aðfangadag. Fannar segir engar reglur vera um gjafirnar en biður fólk um að gæta hófsemi og skynsemi. „Það má ekki gefa bara eitthvert drasl, heldur eitthvað sem þú heldur að muni virkilega gleðja einstaklinginn út frá lýsingunni. Það skiptir ekki máli hvort það er heimagert eða keypt, bara að það gleðji,“ segir hann.

Hægt er að skrá sig á Facebooksíðu þeirra Facebook.com/leynijolasveinninn. „Við hvetjum svo alla til þess að taka mynd af gjöfinni sem þeir fá og það er aldrei að vita nema við veljum frumlegustu gjöfina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×