Lífið

Ein mynd á dag fram að jólum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Freyja, Kári, Arngrímur og Snæbjörn.
Freyja, Kári, Arngrímur og Snæbjörn. Vísir/Ernir
„Ég hef verið að gera þetta síðustu ár í lokaðri grúppu með félaga mínum. Hann var svo upptekinn núna þannig ég fór bara sjálfur eitthvað að dandalast með þetta,“ segir Kári Martinsson Regal, sem í desember teiknar eina mynd á dag í formi jóladagatals.

Á myndum Kára eru dagsetningar hvers dags settar í jólabúning og tölustafirnir meðal annars færðir í búning kerta, jólastafa, kaffikönnu og seglskútu.

Kári starfar sem grafískur hönnuður hjá PORTi hönnun og segir dagatalið kjörna leið til þess að kalla fram bros og halda sér í æfingu.

Myndirnar teiknar Kári yfir sjónvarpinu með börnunum sínum þremur. „Ég ákvað þegar ég byrjaði að teikna allar myndirnar á eitt A3-blað. Ég er farinn að hafa smá áhyggjur af plássleysi en það þýðir líka að ég má ekki gera mörg mistök.“

Dagatalið verður vafalaust tilkomumikið í lok aðventunnar en þetta er í fyrsta skipti sem Kári teiknar allar myndirnar á eitt blað.

Hann segir börnin hafa gaman af uppátæki föður síns. „Börnin hafa mjög gaman af þessu og bekkjarsystkini dóttur minnar líka. Maður finnur alveg að það er komin smá svona pressa á mann þannig maður reynir að vera búinn að setja þetta inn fyrir svona níu, tíu á morgnana,“ segir Kári, sem birtir myndirnar á Instagram-síðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×