Sport

FH á 85 ára afmæli í dag

Sveinn Arnarsson skrifar
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri FH
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri FH Vísir/Valli
„Mér líst mjög vel á framtíðina og er þess fullviss að á 100 ára afmælinu verði FH enn í fremstu röð á öllum vígstöðvum með eina bestu aðstöðu sem fyrirfinnst á Íslandi,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fimleikafélags Hafnarfjarðar.

Fimleikafélag Hafnarfjarðar, FH, er 85 ára í dag, 15. október. Af því tilefni hefur félagið boðið öllum FH-ingum og velunnurum félagsins í afmæliskaffi milli klukkan 17 og 19 í dag að Sjónarhóli í Kaplakrika. Félagið hefur verið sigursælt síðustu árin, jafnt í knattspyrnu, handknattleik og frjálsum íþróttum.

Birgir segir alla starfsemi FH vera til fyrirmyndar og að uppbygging Kaplakrika sé liður í því að halda félaginu enn í fremstu röð. „Við erum með bestu skylmingadeild landsins, frjálsíþróttadeildin hefur verið í fremstu röð í áratugi, mikill uppgangur hefur verið í handboltanum síðustu ár eftir nokkur mögur ár og flestir vita að knattspyrnulið okkar hefur verið á toppnum í tíu ár í karlaboltanum. Uppbygging mannvirkja mun hjálpa til við að halda okkur áfram í fremstu röð,“ segir Birgir. 

Uppbyggingin í Kaplakrika hefur verið mikil síðustu ár. Knattspyrnuhús, yfirbyggð stúka yfir aðalleikvangi knattspyrnunnar og frjálsíþróttahöll hafa risið á svæðinu á síðustu árum. „Nú er á teikniborðinu að byggja tvö ný knattspyrnuhús á efra svæðinu, sem mun nýtast yngri iðkendum gríðarlega vel. Þótt aðstaðan sé góð hafa yngstu iðkendurnir þurft að glíma við plássleysi upp á síðkastið,“ segir Birgir.

Einn af forvígismönnum stofnunar Fimleikafélagsins árið 1929 var Hallsteinn Hinriksson, faðir Geirs Hallsteinssonar sem gerði garðinn frægan með handknattleiksliði FH á sínum tíma, og afi Loga Geirssonar, sem var einn af silfurdrengjum landsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×