Íslenski boltinn

Vona að fólk nýti tækifærið og skelli sér á völlinn tvo daga í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins.
Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins. Fréttablaðið/valli
Freyr Alexandersson tilkynnti í gær íslenska hópinn sem mætir Dönum í undankeppni HM 2015 á Laugardalsvelli 21. ágúst.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið, en Ísland þarf að vinna alla þrjá leikina sem eftir eru í 3. riðli undankeppninnar til að eygja von um að komast í umspil um sæti á HM.

Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sif Atladóttir verða ekki með vegna meiðsla, en 15 af 20 leikmönnum í hópnum leika í Pepsi-deildinni.

Ísland og Danmörk skildu jöfn, 1-1, í fyrri leiknum en Freyr segir að íslenska landsliðið eigi erfitt verkefni fyrir höndum á Laugardalsvellinum, en þetta verður í fyrsta sinn sem þessar þjóðir mætast á íslenskri grundu. En hvað þarf Ísland að gera til að vinna leikinn?

„Við þurfum að undirbúa okkur vel og ná upp góðri stemmningu innan liðsins og svo þurfum við að fá fólk á völlinn,“ sagði Freyr og bætti við:

„Við þurfum að hafa varnarleikinn í lagi, pressa á réttum stöðum og reyna að vinna boltann framarlega á vellinum eins og oft og við getum,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Leikur Stjörnunnar og Inter í forkeppni Evrópudeildarinnar fer fram daginn áður á Laugardalsvellinum. Freyr segir að sá leikur muni eflaust fá mikla athygli, en vonast þó að áhorfendur muni mæta vel á leikinn gegn Dönum.

„Við fáum risastóra leiki í Laugardalnum tvo daga í röð. Það er ekki mikið eftir af sumrinu og ég vona að fólk nýti tækifærið og sjái báða leikina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×