Sport

Nokkur fyrirtæki íhuga að kæra KSÍ og Reykjavíkurborg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Þór Hafþórsson hjá Jóhanni Ólafssyni og co. er óánægður með hvernig staðið var að kaupum á nýrri flóðlýsingu við Laugardalsvöll.
Arnar Þór Hafþórsson hjá Jóhanni Ólafssyni og co. er óánægður með hvernig staðið var að kaupum á nýrri flóðlýsingu við Laugardalsvöll. Vísir/Arnþór
Þau fyrirtæki sem ekki fengu kost á að gera Knattspyrnusambandi Íslands tilboð í nýja flóðlýsingu á Laugardalsvelli eru ósátt við að verkið hafi ekki farið í útboð og skoða nú réttarstöðu sína. Þetta segir Arnar Þór Hafþórsson, sölu- og markaðsstjóri hjá Jóhanni Ólafssyni og co.

„Okkar lögfræðingar eru að kynna sér hvaða úrræði við höfum og hvaða líkur eru á því að málið yrði tekið fyrir. En þetta er eitthvað sem við höfum skoðað,“ segir Arnar Þór en fyrirtækið er ekki það eina sem er í þeirri stöðu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Reykjafell, Rönning og Ískraft munu einnig vera að skoða málin.

Þann 4. júní greindi Fréttablaðið frá því að ný flóðlýsing Laugardalsvallar hefði ekki farið í útboð en GeirÞorsteinsson, formaður KSÍ, segir að ekki hafi gefist tími til þess.

„Þessi mál þurfti að afgreiða fljótt og vel,“ sagði Geir þá en KSÍ hafði fengið athugasemdir frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, um að flóðlýsing vallarins stæðist ekki kröfur og að hana þyrfti að lagfæra fyrir fyrstu leiki íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2016 í haust.

Engin lög brotin

Verkið hefði þurft að fara í útboð samkvæmt þeim viðmiðunarfjárhæðum sem tilgreindar eru í lögum um opinber innkaup en kærunefnd útboðsmála hefur áður úrskurðað að KSÍ sé ekki skylt að fara eftir lögunum þar sem sambandið telst ekki opinber aðili.

Kaupin eru þó að hluta fjármögnuð með styrk frá Reykjavíkurborg en S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir að borgaryfirvöld séu þess fullviss að lög hafi ekki verið brotin.

„Hverju sem öðru líður mun Reykjavíkurborg borga innan við helming kostnaðarins,“ segir Björn en bendir á að nákvæm útfærsla á greiðslufyrirkomulagi borgarinnar til KSÍ sé enn í skoðun hjá borginni.

„Það var farið ítarlega yfir þetta á sínum tíma enda erum við ákaflega passasöm með innkaupareglur borgarinnar,“ segir Björn.

Upphaflega stóð til að málið yrði tekið fyrir á fundi ráðsins þann 8. maí en þáverandi formaður og núverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, tók málið af dagskrá. Björn segir að málið verði ekki tekið fyrir á fundi borgarráðs í dag en vonast til að það verði gert á næstu vikum.

„Þetta er mál sem er ekki klárt að öllu leyti en verður upplýst með gegnsæjum og góðum hætti þegar þar að kemur.“

Geir Þorsteinsson vildi ekki tjá sig um málið með ítarlegum hætti í samtali við Fréttablaðið í gær. „Það eina sem vakir fyrir okkur er að tryggja fullnægjandi lýsingu á Laugardalsvelli fyrir næstu keppnisleiki íslenska landsliðsins í knattspyrnu,“ sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×