Íslenski boltinn

Saknaði Íslands

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þóra B. Helgadóttir samdi við Fylki í gær.
Þóra B. Helgadóttir samdi við Fylki í gær. Fréttablaðið/Stefán
Fylkir fékk gríðarlegan styrk fyrir átökin sem framundan eru í Pepsi-deild kvenna þegar Þóra B. Helgadóttir samdi við félagið. Þóra var farin að sakna þess að búa á Íslandi.

„Ég held að það sé óhætt að segja það að atvinnumannaferli mínum sé að ljúka. Ég er búin að vera lengi í atvinnumennsku og mig langar að búa aftur heima og vera nær fjölskyldunni,“ sagði Þóra í samtali við Fréttablaðið í gær.

Átta ár eru síðan Þóra lék síðast leik með íslensku félagsliði.

„Þetta hefur verið frábær tími og ég hef náð nánast öllum mínum markmiðum. Ég horfi stolt til baka á ferilinn,“ sagði Þóra sem samdi við nýliða Fylkis þrátt fyrir áhuga annarra liða.

„Ég fór með opnum hug inn í viðræður við íslensku liðin og talaði við öll þau lið sem höfðu samband af fullri alvöru. Þau höfðu öll á sinn hátt áhugaverða hluti fram að færa en á endanum valdi ég Fylki. Ég hef ekki séð til liðsins en það töluðu allir sem ég ræddi við vel um Fylkisliðið,“ en Þóra lék á árum áður lengst af með Breiðabliki.

„Ég heyrði í Blikum þar sem það er mitt uppeldisfélag. Við vorum algerlega sammála um að tímasetningin hentaði hvorugu að þessu stöddu. Það verður spennandi að prófa að spila með nýju liði á Íslandi, fara í annað umhverfi en maður þekkir,“ segir Þóra en hún á þrjá leiki eftir með félagsliði sínu áður en hún snýr aftur heim.

„Vonandi endum við þetta á þremur sigrum áður en nýtt ævintýri tekur við,“ sagði Þóra brött.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×