Skoðun

Traust fjármálastjórn í Reykjavík

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Nýlega bárust þær jákvæðu fréttir að afkoma Reykjavíkurborgar var jákvæð um 8,4 milljarða króna árið 2013. Þetta eru ánægjuleg tíðindi, því ekki er svo langt síðan að rekstrarniðurstaða borgarinnar var neikvæð sem nam 71 milljarði eins og raunin var árið 2008. Eiginfjárhlutfall borgarinnar hefur aukist úr 26% árið 2009 í 40% árið 2013 eða um 50%. Þetta skiptir máli, því traustari sem eiginfjárstaðan er, því betri lánskjör fær borgin.

Mestu skiptir að skuldastaða Reykjavíkurborgar hefur batnað töluvert undanfarin ár. Árið 2009 skuldaði Reykjavíkurborg (bæði A- og B-hluti) um 358 milljarða en við síðustu áramót skuldaði samstæðan 286 milljarða. Þetta er jákvæð þróun uppá 72 milljarða en þó er skuldarhlutfall borgarinnar enn of hátt eða um 221% af tekjum samstæðunnar.

Samkvæmt reglum um fjármál sveitarfélaga skal undanskilja reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja frá reikningsskilum sveitarfélagsins. Þegar tekið hefur verið tillit til þess er skuldarhlutfall borgarinnar 106% og vel fyrir innan viðmiðunarmörk um skuldarhlutfall sveitarfélaga sem er um 150%. Til viðbótar þessu hefur markvisst verið reynt að draga úr erlendum skuldum borgarinnar, en hlutfall þeirra af heildarlangtímaskuldum lækkaði úr 69% í 63% milli ára. Þetta sýnir trausta fjármálastjórn, því ef vextir af erlendum lánum hækka um 1%, þýðir það útgjaldaaukningu uppá 2,5 milljarða króna.

Til viðbótar þessu má geta þess að núverandi meirihluti hefur ekki látið OR greiða borginni arð en fyrri meirihluti lét OR borga arð fyrir árin 2009 og 2010, 800 milljónir í hvort sinn, en bæði árin var OR rekið með stórtapi! Það er ekki dæmi um ábyrga fjármálastjórn.

Að lokum vil ég nefna eina kennitölu úr rekstri borgarinnar sem gleður mig en það er uppgreiðslutími skulda í árum. Árið 2009 var uppgreiðslutíminn 18 ár, en árið 2013 var þessi uppgreiðslutími kominn niður í 10 ár. Núverandi meirihluti hefur staðið vaktina vel hvað fjármál borgarinnar snertir, hann hefur tekið fjármálin föstum tökum og tekið ákvarðanir sem miða að því að treysta fjármálalega stöðu borgarinnar, sbr. aðgerðina „PLANIГ sem var hrint í framkvæmd vegna fjárhagsvandræða OR í upphafi kjörtímabilsins. Það er gleðilegt að eftir erfið ár eru horfur í fjármálum borgarinnar mjög jákvæðar, fyrir borgina, fyrirtæki hennar og ekki síst íbúa hennar og framtíð þeirra!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×