Skoðun

Góðar fréttir af fjármálum

Dagur B. Eggertsson skrifar
Það er ekki alltaf sem hlutir eins og ársreikningar vekja bros eða tilfinningar, eins og stolt. En nú er ég bæði ánægður og stoltur. Uppskera erfiðis síðustu ára birtist skýrt í ársuppgjöri borgarinnar fyrir árið 2013, svokölluðum ársreikningi.

Afgangur af heildarrekstrinum er jákvæður um 8,4 milljarða króna. Allir hlutar rekstrarins skila jákvæðri niðurstöðu og öll helstu fyrirtæki í eigu borgarinnar. Allar áætlanir standast – og raunar vel það. Það er til marks um trausta fjármálastjórn í öllum einingum. Það segir einnig mikla sögu að aldrei hafa skuldir verið lækkaðar jafn mikið á einu ári í sögu borgarinnar eða um 35 milljarða króna.

Einn mikilvægasti þátturinn í þessari góðu niðurstöðu er björgunaráætlunin í fjármálum Orkuveitunnar, sem kölluð hefur verið Planið. Hún hefur gengið eftir. Það skiptir miklu máli því Orkuveitan þarf að standa undir gríðarstórum afborgunum af lánum. Starfsfólk og stjórnendur eiga heiður skilinn fyrir góðan árangur í erfiðu verkefni.

Samanburður á gjaldskrám og sköttum sýnir að það er hagstæðast fyrir fjölskyldur að búa í Reykjavík. Hér er lægst hlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og lægstar gjaldskrár í leik- og grunnskólum. Það er mjög mikilvægt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur á undanförnum dögum lagt áherslu á skuldir borgarsjóðs sem hafi hækkað um 16 milljarða á síðustu þremur árum. Þá líta þeir fram hjá heildarmyndinni og Orkuveitunni. Mikilvægi Orkuveitunnar í heildinni sést þó einmitt vel á því að 12 af þessum 16 milljörðum sem borgarsjóður tók að láni fór í neyðarlán borgarsjóðs til Orkuveitunnar. Þegar heildin er skoðuð hafa skuldir lækkað á hverju ári í tíð núverandi meirihluta.

Borgin hefur engu að síður haldið uppi framkvæmdastigi með fjárfestingum frá 2010 og aukið atvinnu með margvíslegum leiðum. Þetta hefur unnið gegn hækkun útgjalda vegna fjárhagsaðstoðar, skapað vöxt í atvinnulífinu og tekjur fyrir borgarsjóð, þótt þetta stórátak hafi líka kostað.

Staðan sem birtist í ársreikningum borgarinnar er uppskera borgarstjórnarmeirihluta sem tók við Orkuveitu Reykjavíkur á hliðinni. Þar var 50 milljarða gat í rekstrinum. Hjá borgarsjóði var 5 milljarða gat staðreynd. Nú eru fjármálin í lagi, gjaldskrár og álögur eru lágar og skuldir lækka. Það er mikilvægt að borginni verði áfram stjórnað af sömu yfirvegun, ábyrgð og festu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×