Skýrslutrompið Ólafur Þ. Stephensen skrifar 4. mars 2014 07:00 Ráðherrar og stjórnarþingmenn vísa ekki eingöngu til „ómöguleikans“ þegar þeir verja þá ákvörðun að ætla að svíkja kosningaloforðin og slíta aðildarviðræðunum við ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir vilja nota skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu viðræðnanna sem átyllu. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði þetta þannig á Bylgjunni í gær: „Menn voru að tala um að það ætti að kjósa um þetta. Síðan kemur hér skýrsla sem segir: Það eru engar varanlegar lausnir í boði. Þá er auðvitað ekkert hægt að fara að kjósa um þetta.“ Þessi framsetning er beinlínis rangtúlkun á niðurstöðum skýrslunnar. Þar er ekkert sem gefur ástæðu til að slíta viðræðunum. Í skýrslunni kemur í fyrsta lagi fram að ekki séu dæmi um varanlegar undanþágur frá stefnu ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það segir okkur út af fyrir sig ekkert um það að Ísland fái ekki slíka undanþágu; sérstaða okkar í sjávarútvegsmálum er svo miklu meiri en annarra ríkja sem áður hafa samið um aðild að ESB að það er ekki hægt að útiloka það fyrirfram. Svo mikið er víst að ótal dæmi eru um varanlegar undanþágur í aðildarsamningum ESB-ríkja, sem hafa verið veittar á grundvelli þjóðarhagsmuna. Í öðru lagi kemur fram að hægt sé að fá tímabundnar undanþágur og dæmi séu um þær, til dæmis í landbúnaðarmálunum. Í þriðja lagi eru sérlausnir, þar sem löggjöf ESB er breytt til að mæta hagsmunum umsóknarríkis. Slík lausn er til dæmis breyting á landbúnaðarstefnu ESB fyrir „heimskautalandbúnað“ Svía og Finna. Það er að sjálfsögðu varanleg lausn; hún hefur gilt í 20 ár og stendur ekki til að hrófla við henni. Annað dæmi eru sérlausnir til að mæta sérstöðu Möltu í sjávarútvegi. Fjármálaráðherrann gerði lítið úr þeim á fundi í Valhöll; sagði að heildarafli Möltu væri eins og hjá einum íslenzkum línubáti. Það væri því ekki hægt að bera saman sjávarútvegshagsmuni Íslands og Möltu. Það er rétt, en það eru ekki rök fyrir því að Ísland fengi síður sérlausnir en Malta. Þvert á móti er Ísland margfalt líklegra til að fá sérlausnir, vegna mikilvægis sjávarútvegsins. Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, setti fram hugmyndir um að hægt væri að búa til innan sjávarútvegsstefnu ESB sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði á Íslandsmiðum, hafa menn fremur horft til þess að löggjöf sambandsins yrði breytt en að Ísland þyrfti sérstakar undanþágur. Þannig orðaði Halldór það í ræðu sinni í Berlín í marz 2002; þetta yrði ekki undanþága frá stefnunni, heldur sértæk beiting hennar. Evrópusambandið hefur margoft lýst því yfir að hægt sé að semja um slíkt, meðal annars í rökstuðningi framkvæmdastjórnarinnar fyrir því að hefja aðildarviðræður við Ísland. Þar er það orðað svo að aðild Íslands myndi hafa mikil áhrif á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þetta hefur út af fyrir sig allt legið fyrir; í skýrslunni eru engin ný sannindi að þessu leyti. Og þegar allt kemur til alls fáum við aldrei að vita þetta fyrir víst nema við klárum aðildarviðræður og sjáum aðildarsamninginn. Skýrslan breytir engu um það. Stjórnarliðar virðast raunar ekki trúaðri en svo á þetta skýrslutromp sitt að þeir gerðu ekkert með orð stjórnarsáttmálans um að fyrst ætti að ræða skýrsluna á þingi og kynna hana svo fyrir þjóðinni; þeir lögðu í óðagoti fram tillögu um að slíta viðræðunum áður en skýrslan var einu sinni útrædd á þinginu. Það sem þeir eiga auðvitað að gera er að leyfa þjóðinni að kynna sér hana rækilega – og kjósa svo um framhald viðræðna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Verðbólga í boði Viðreisnar Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Neglum niður vextina Kristrún Frostadóttir Skoðun Ísland 2074 Kjartan Magnússon Skoðun 16 ára aldurstakmark á samfélagsmiðlum Skúli Bragi Geirdal Skoðun 200 þúsund til að búa í fatahengi LOL Derek T. Allen Skoðun Farsældarlögin snúast ekki um börnin Lúðvík Júlíusson Skoðun Er 0,145% bankaskattur virkilega nóg? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun
Ráðherrar og stjórnarþingmenn vísa ekki eingöngu til „ómöguleikans“ þegar þeir verja þá ákvörðun að ætla að svíkja kosningaloforðin og slíta aðildarviðræðunum við ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir vilja nota skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu viðræðnanna sem átyllu. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, orðaði þetta þannig á Bylgjunni í gær: „Menn voru að tala um að það ætti að kjósa um þetta. Síðan kemur hér skýrsla sem segir: Það eru engar varanlegar lausnir í boði. Þá er auðvitað ekkert hægt að fara að kjósa um þetta.“ Þessi framsetning er beinlínis rangtúlkun á niðurstöðum skýrslunnar. Þar er ekkert sem gefur ástæðu til að slíta viðræðunum. Í skýrslunni kemur í fyrsta lagi fram að ekki séu dæmi um varanlegar undanþágur frá stefnu ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það segir okkur út af fyrir sig ekkert um það að Ísland fái ekki slíka undanþágu; sérstaða okkar í sjávarútvegsmálum er svo miklu meiri en annarra ríkja sem áður hafa samið um aðild að ESB að það er ekki hægt að útiloka það fyrirfram. Svo mikið er víst að ótal dæmi eru um varanlegar undanþágur í aðildarsamningum ESB-ríkja, sem hafa verið veittar á grundvelli þjóðarhagsmuna. Í öðru lagi kemur fram að hægt sé að fá tímabundnar undanþágur og dæmi séu um þær, til dæmis í landbúnaðarmálunum. Í þriðja lagi eru sérlausnir, þar sem löggjöf ESB er breytt til að mæta hagsmunum umsóknarríkis. Slík lausn er til dæmis breyting á landbúnaðarstefnu ESB fyrir „heimskautalandbúnað“ Svía og Finna. Það er að sjálfsögðu varanleg lausn; hún hefur gilt í 20 ár og stendur ekki til að hrófla við henni. Annað dæmi eru sérlausnir til að mæta sérstöðu Möltu í sjávarútvegi. Fjármálaráðherrann gerði lítið úr þeim á fundi í Valhöll; sagði að heildarafli Möltu væri eins og hjá einum íslenzkum línubáti. Það væri því ekki hægt að bera saman sjávarútvegshagsmuni Íslands og Möltu. Það er rétt, en það eru ekki rök fyrir því að Ísland fengi síður sérlausnir en Malta. Þvert á móti er Ísland margfalt líklegra til að fá sérlausnir, vegna mikilvægis sjávarútvegsins. Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, setti fram hugmyndir um að hægt væri að búa til innan sjávarútvegsstefnu ESB sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði á Íslandsmiðum, hafa menn fremur horft til þess að löggjöf sambandsins yrði breytt en að Ísland þyrfti sérstakar undanþágur. Þannig orðaði Halldór það í ræðu sinni í Berlín í marz 2002; þetta yrði ekki undanþága frá stefnunni, heldur sértæk beiting hennar. Evrópusambandið hefur margoft lýst því yfir að hægt sé að semja um slíkt, meðal annars í rökstuðningi framkvæmdastjórnarinnar fyrir því að hefja aðildarviðræður við Ísland. Þar er það orðað svo að aðild Íslands myndi hafa mikil áhrif á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þetta hefur út af fyrir sig allt legið fyrir; í skýrslunni eru engin ný sannindi að þessu leyti. Og þegar allt kemur til alls fáum við aldrei að vita þetta fyrir víst nema við klárum aðildarviðræður og sjáum aðildarsamninginn. Skýrslan breytir engu um það. Stjórnarliðar virðast raunar ekki trúaðri en svo á þetta skýrslutromp sitt að þeir gerðu ekkert með orð stjórnarsáttmálans um að fyrst ætti að ræða skýrsluna á þingi og kynna hana svo fyrir þjóðinni; þeir lögðu í óðagoti fram tillögu um að slíta viðræðunum áður en skýrslan var einu sinni útrædd á þinginu. Það sem þeir eiga auðvitað að gera er að leyfa þjóðinni að kynna sér hana rækilega – og kjósa svo um framhald viðræðna.
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Stefnubreyting Miðflokksins gegn hagsmunum bænda Þórarinn Ingi Pétursson,Þuríður Lillý Sigurðardóttir,Jóhann Friðrik Friðriksson,Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson,Stefán Vagn Stefánsson,Halla Signý Kristjánsdóttir Skoðun
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun