Ekkert varð af því að Aron Kristjánsson tilkynnti EM-hópinn sinn í gær. Sökum meiðslavandræða mun hann ekki gera það fyrr en á morgun og liðið heldur svo til Danmerkur á föstudag.
„Arnór Atlason og Arnór Gunnars æfðu með okkur í dag [í gær] og litu vel út. Ég reikna því með að þeir verði klárir. Þórir Ólafsson lítur líka vel út með framhaldið,“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari en fleiri leikmenn eru að glíma við meiðsli.
„Guðjón Valur er tæpur og kemur ekki í ljós með hann fyrr en á síðustu stundu. Hann þarf að fara varlega með sín meiðsli. Ólafur Bjarki er líka spurningarmerki og verður það áfram. Gaui og Óli eru stóru spurningarmerkin hjá okkur núna,“ segir Aron en Ólafur Bjarki meiddist í æfingamótinu í Þýskalandi þar sem hann hafði verið að spila vel.
Það hefur verið nóg að gera hjá læknum og sjúkraþjálfurum liðsins síðustu daga og verður það áfram úti í Danmörku.
„Við berum auðvitað fyllsta traust til okkar sterka sjúkrateymis, að það haldi leikmönnum gangandi. Það eru fjórir í því teymi og verður nóg að gera hjá þeim.“
Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Norðmönnum á sunnudag. Hann verður í beinni textalýsingu á Vísi.
Guðjón Valur og Ólafur Bjarki eru stóru spurningarmerkin
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Mest lesið


Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn


Njarðvík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld
Íslenski boltinn





