Lífið

Herbert Guðmundsson notar Season All á jólaöndina

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Söngvarinn góðkunni, Herbert Guðmundsson, er ekki við eina fjölina felldur. Hann er ekki bara þekktur lagasmiður og söngvari, heldur er hann líka liðtækur í eldhúsinu. Á jólunum býður hann fjölskyldu sinni upp á önd, en ástæða þess að Herbert hefur önd á boðstólnum er sú að hann var heltekinn af ævintýrinu Litla stúlkan með eldspýturnar.

„Þegar ég var lítill var ég alveg gagntekinn af þessu ævintýri H.C. Andersen. Og mig minnir að ég hafi séð bíómynd eða teiknimynd með ævintýrinu þar sem stúlkan notaði síðustu eldspýtuna sína til þess að sjá hvað ríka fólkið var að borða. Þar var önd á boðstólnum. Ég hef því önd í jólamatinn til heiðurs stúlkunni,“ segir Herbert og útskýrir hvernig hann kryddar jólaöndina:

„Ég nota Season All sem ég kaupi í Bandaríkjunum. Síðast þegar ég var þar, í sumar, keypti ég meira af kryddinu. Síðan nota ég krydd frá McCormick sem heitir Total Seasonings for Chicken & Fish og smá Kød og Grill frá Knorr. Þetta svínvirkar alveg.“

En kryddið er þó ekki eina leyndarmálið á bakvið hina bragðgóðu jólaönd. „Ég fylli hana með alveg geðveikri stöffingu. Í hana nota ég brauð, egg, lauk, gula, græna papriku og sitthvað fleira. Ég krydda hana líka alveg sérstaklega. Strákarnir mínu hafa alltaf verið alveg vitlausir í stöffinguna.“

Hér að neðan má sjá jólaönd Herberts og kryddin sem hann notar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×