Bílar

Ný tækni Alcoa mun leiða til byltingar í smíði bíla

Finnur Thorlacius skrifar
Bílar munu léttast með nýrri málmblöndu Alcoa.
Bílar munu léttast með nýrri málmblöndu Alcoa.
Alcoa kynnti í síðustu viku nýja og byltingarkennda tækni til framleiðslu á háþróuðum framleiðsluvörum úr álblendum fyrir iðnfyrirtæki. Tæknin mun hafa einna mest áhrif í bílaiðnaði þar sem óhætt er að tala um byltingu í framleiðslu og hönnun.

Bæði er um að ræða byltingarkennda eiginleika nýs málmblendis til mótunar á einstökum hlutum og þá tækni sem beitt er við framleiðslu málmblendisins. Nýja framleiðslan verður starfrækt undir merkjum dótturfyrirtækisins Alcoa Micromill í San Antonio í Bandaríkjunum og mun fyrirtækið gegna einna veigamestu hlutverki í því markmiði Alcoa að mæta aukinni eftirspurn frá bílaframleiðendum fyrir mismunandi gerðir af sterkum en sveigjanlegum léttmálmum.

Í hnotskurn

• Micromill mun framleiða nýja tegund af málmblendi sem er 40% sveigjanlegra og 30% sterkara en þeir málmar sem hingað til hafa verið notaðir. Nýja blendið uppfyllir jafnframt stífar kröfur bílaframleiðenda um yfirborðsgæði.

• Tvöfalt auðveldara verður að forma til einstaka bílhluti úr málmblendum Alcoa Micromill og bílhlutirnir verða 30% léttari en væru þeir úr sérstyrktu stáli.

• Framleiðslutími málmblendis til afhendingar frá Micromill styttist úr 20 dögum í 20 mínútur.

• Tækni Micromill gerir framleiðsluvélum fyrirtækisins kleift að skipta fyrirvaralaust um framleiðsluvörur eftir því fyrir hvaða iðngrein verið er að framleiða, s.s. bílaiðnaðinn, umbúðaiðnaðinn eða aðrar iðngreinar.

• Framleiðslutilraunum er lokið og er verið að ljúka mótun nauðsynlegra gæðastaðla áður en fjöldaframleiðsla hefst formlega á næstu kynslóð málmblendis fyrir bílaiðnaðinn.

Bylting framundan

„Tækni og vörur Alcoa Micromill fela í sér meiri háttar tímamót í framleiðslu á álvörum sem leiða munu til algerrar byltingar í bílaframleiðslu vegna mikils styrkleika efnisins, mikillar hæfni þess til að formast í mismunandi vörur og vegna einstakra yfirborðsgæða sem hafa ekki sést áður,“ segir stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Klaus Kleinfeld. Hann segir að framleiðsla Micromill muni gera bílaframleiðendum kleift að hugsa hönnun bíla alveg upp á nýtt og gera þeim mögulegt að framleiða allt í senn flottari, léttari, sparneytnari og öruggari bíla en áður.

Einstakir eiginleikar

Álplöturnar frá Micromill eru 40% auðsveigjanlegri en áður hefur þekkst og verða þær mótaðar í margbreytileg form hjá bílaframleiðendum. Dæmi um slíka hluti eru t.d. innra byrði bílhurða og stuðarar sem nú eru að jafnaði gerðir úr stáli. Aukinn styrkleiki efnisins í ytra byrði á bílum eykur viðnám gegn höggum og þar með líkur á beyglum.

Styrkleikinn gerir framleiðendum jafnframt kleift að framleiða þynnri íhluti, t.d. bretti, húdd og annað. Þessi enn víðtækari notkun málmblenda úr áli sem framundan er mun hafa í för með sér enn léttari bíla án þess að dregið sé úr öryggi. Málmblendin frá Micromill munu sömuleiðis hafa í för með sér lækkun á framleiðslukostnaði hjá bílaframleiðendum.

 






×