Enski boltinn

Ótrúlegur ferill Rickie Lambert

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rickie Lambert fagnar marki sínu í kvöld.
Rickie Lambert fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Rickie Lambert hefur átt lygilegan feril en þessi 32 ára sóknarmaður skoraði í kvöld sitt fyrsta Meistaradeildarmark á ferlinum.

Lambert skoraði jöfnunarmark Liverpool gegn búlgarska liðinu Ludogorets en markið má sjá hér neðst í fréttinni. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég byrja í leik í Meistaradeildinni og það var gott að skora,“ sagði Lambert hógvær eftir leikinn.

Lambert er heimamaður. Hann ólst upp í Kirkby, bæ sem er í aðeins tíu kílómetra fjarlægð frá Liverpool, og lék með unglingaliðum félagsins þar til að hann var látinn fara aðeins fimmtán ára gamall.

Atvinnumannaferillinn hófst hjá Blackpool en þar gekk honum illa að festa sig í sessi. Hann skoraði sín fyrstu mörk fyrir Macclesfield í D-deildinni árið 2001 og hélt þaðan til Stockport, svo Rochdale og loks Bristol Rovers þar sem hann sló almennilega í gegn.

Southampton var nýfallið í C-deildina árið 2009 er það keypti Lambert en kappinn fór með liðinu alla leið upp í ensku úrvalsdeildina og vann sér sæti í enska landsliðinu áður en hann var loks keyptur til Liverpool í sumar.

Lambert hefur skoraði í öllum fjórum atvinnumannadeildum Englands, neðrideildarbikarnum (stundum kallaður „málningabikarinn“ - áður „framrúðubikarinn“), ensku bikarkeppninni, deildarbikarnum og nú Meistaradeild Evrópu. Þá hefur hann líka spilað á HM í fótbolta og skorað fyrir enska landsliðið á Wembley-leikvanginum, svo fátt eitt sé nefnt.

Lambert fagnar efitr að hafa komist upp úr D-deildinni með Bristol Rovers árið 2007.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×