Körfubolti

Hefna Keflvíkingar fyrir sópið í vor? - allt í beinni á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson brýtur hér á Val Orra Valssyni í seríu liðanna í vor.
Kjartan Atli Kjartansson brýtur hér á Val Orra Valssyni í seríu liðanna í vor. Vísir/Stefán
Fyrsti mánudagsleikur vetrarins í Dominos-deild karla í körfubolta verður í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 19.15 í kvöld þegar Keflvíkingar taka á móti Stjörnunni í TM-höllinni á Sunnubrautinni.

Þetta er lokaleikur annarrar umferðar en Keflvíkingar eiga möguleika á því að vera með fullt hús eftir tvo leiki eins og Haukar, Tindastóll og KR. Stjörnumenn misstu niður nær unninn leik á heimavelli í tapi fyrir Tindastól í fyrstu umferð á sama tíma og Keflavíkurliðið vann seiglusigur á Skallagrími í Borgarnesi.

Guðjón Guðmundsson og Svali Björgvinsson lýsa leiknum saman af sinni alkunnu snilld en útsending Stöðvar tvö hefst klukkan 19.00.

Keflvíkingar eiga vissulega harma að hefna síðan í vor þegar Stjörnuliðið sópaði þeim út úr átta liða úrslitum úrslitakeppninni. Stjörnumenn unnu tvo af þessum þremur leikjum á Sunnubrautinni og Keflavíkurliðið vann ekki leik í úrslitakeppninni þrátt fyrir að vera með heimavallarétt í fyrstu umferð.

Þetta var ennfremur þriðja árið í röð sem Stjörnumenn binda enda á tímabil Keflavíkurliðsins því Stjarnan vann einvígi liðann í átta liða úrslitunum 2012 og 2013.

Keflavíkurliðið fékk að hugsa í allt sumar um flautukörfu Marvins Valdimarssonar í lokaleiknum síðasta vor en mögnuð þriggja stiga karfa Marvins tryggði Stjörnunni 94-93 sigur og sendi Keflvíkinga í sumarfrí.

Bæði lið er nú með nýja þjálfara, Helgi Jónas Guðfinnsson er tekinn við liði Keflavíkur og Hrafn Kristjánsson þjálfar lið Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×