General Motors hefur greint frá afkomutölum þriðja ársfjórðungs þessa árs og kemur í ljós að hann er sá besti hjá fyrirtækinu frá 1980, eða í 34 ár. Hagnaður GM var 170 milljarðar króna á fjórðungnum og fór verulega fram úr spám. Tvöfaldaði GM hagnað sinn frá árinu áður þrátt fyrir tíðar innkallanir bíla fyrirtækisins.
Góð sala bíla GM í Bandaríkjunum á mestan þátt í þessu ágæta uppgjöri. GM seldi alls 2,4 milljónir bíla á þessum 3. ársfjórðungi. Sala GM í fjórðungunum nam 4.755 milljörðum króna svo hagnaður af veltu var 3,6%. Velta GM jókst þó aðeins um tæpt 1% þó svo hagnaðurinn hafi tvöfaldast.
Heildarvelta GM á árinu er komin í 19.520 milljarða og hefur vaxið um ríflega 1% á árinu. Það hefur valdið lækkun á bréfum GM á hlutabréfamarkaði, sem greinilega hefur valdið vonbrigðum þrátt fyrir aukinn hagnað. Áfram var tap á rekstri GM í Evrópu.
Besti fjórðungur General Motors í 34 ár
