Íslenski boltinn

Hallbera valdi Breiðablik frekar en atvinnumennsku í Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðskonurnar Hallbera Guðný Gísladóttir og Fanndís Friðriksdóttir eru nú samherjar hjá Breiðabliki.
Landsliðskonurnar Hallbera Guðný Gísladóttir og Fanndís Friðriksdóttir eru nú samherjar hjá Breiðabliki. Vísir/Arnþór
Landsliðsbakvörðurinn Hallbera Guðný Gísladóttir gerði í gær þriggja ára samning við Breiðablik í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en hún vildi frekar spila með Blikum en fara aftur út í atvinnumennsku.

„Ég var með fastan samning í höndunum frá Englandi og svo var nokkur áhugi frá Svíþjóð," sagði Hallbera í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í morgun. Tilboðið var frá enska liðinu Notts County sem endaði í sjötta sæti af átta liðum í ensku deildinni á nýloknu tímabili.

„Ég er ekki tilbúin að fara út og vera ein í einhverju miðjumoði einhver staðar," sagði Hallbera í fyrrnefndu viðtali.

Notts County hjálpaði Katrínu Ómarsdóttur og félögum í Liverpool að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn því Notts County liðið náði jafntefli við Birmingham í lokaumferðinni. Birmingham-liðið hefði unnið titilinn með sigri.

Hallbera talar einnig um að það sé raunhæft hjá Breiðabliki að stefna á Íslandsmeistaratitilinn sem hún vann fimm sinnum með Val. Hallbera endaði tímabilið hjá Val sem endaði í 7. sæti í sumar.

„Þær komust næst því að stríða Stjörnunni og ég vonast til að hjálpa þeim að gera enn betur," sagði Hallbera en Breiðablik endaði í 2. sæti í Pepsi-deild kvenna síðasta sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×