Þrír menn til viðbótar hafa verið settir í einangrun á sjúkrahúsi á Spáni vegna hættu á að þeir hafi smitast af ebóluveirunni. Að auki er grannt fylgst með um fimmtíu manns.
Allt eru þetta viðbrögð við veikindum hjúkrunarfræðings á Spáni, konu á fimmtugsaldri, sem smitaðist þegar hún vann við hjúkrun tveggja spænskra presta. Þeir létust báðir af völdum ebóluveirunnar en þeir höfðu smitast í Afríku þar sem þeir unnu við aðhlynningu ebólusmitaðra.
„Í vor vorum við og fleiri læknar að gera lítið úr þessu eins og hefur verið gert í gegnum árin þegar svona faraldur kemur upp en núna hefur orðið algjört breyting á þróun veirunnar á undanförnum fjórum til sex vikum. Núna horfir heimurinn á þennan hræðilega faraldur og útbreiðslu hans.“
Bryndís segir sóttvarnarlækni og starfsfólk hjá landlæknisembættinu vinna með starfsfólki á Keflavíkurflugvelli að því ferli sem fari í gang komi upp grunur um ebólusmit hér á landi.
„Ég vil samt taka það fram, og segi það sem manneskja og ekki sem læknir, að maður getur lesið áætlanir en maður veit ekkert hvað gerist þegar og ef að þessu kemur.“

Aðspurð hvort okkur beri að taka við Íslendingi sem smitist af ebólu svaraði Bryndís:
„Við erum ekki með þennan viðbúnað sem við höfum séð í fréttunum, bæði í Ósló og á Spáni. Við erum að sjálfsögðu með hlífðarfatnað og vel menntað starfsfólk. Í Ósló eru til að mynda tuttugu til þrjátíu starfsmenn sem hafa verið að þjálfa sig í einn til tvo mánuði. Hér á landi er þjálfun vegna veirunnar ekki hafin.“
Bryndís segir að meðgöngutími fólks með veiruna sé sjö til tíu dagar og þá eru einkennin ógleði, hiti, uppköst og niðurgangur.
„Það er nú ólíklegt að einhver fái allt í einu einkenni af ebólu í flugvél. Við skulum hafa það í huga að fólk með allskonar sýkingar eins og Malaríu getur alveg fengið svipuð einkenni um borð í flugvél og það er mikið mun algengara. Við lendum oft í því að flugvélar lenda hér á landi með veikan farþega og skilja hann eftir í Keflavík. Þetta hefur verið rætt en við eigum eftir að útfæra nánar hlutverk starfsfólks.“
Mega ekki sýna nein veikleikamerki
Um 7.200 manns hafa smitast af veirunni í Gíneu, Síerra Leóne og í Líberíu. Þar af hafa minnst 3.400 látið lífið.
„Það er nokkuð merkilegt að fylgjast með fréttum frá Dallas í Bandaríkjunum og frá Noregi. Þar sér maður glögglega að fulltrúar spítalanna mega ekki sýna nein veikleikamerki en maður skynjar að það er verulegur órói. Ég ætla að segja, sem læknir á Landsspítalanum, að við erum 320.000 manna þjóð og erum ekki með Ullevål-sjúkrahúsið þar sem er sérstök einangrunardeild. Í Bandaríkjunum eru fjórar sér einingar sem eru sérstaklega hannaðar til að takast á við svona veirur og sýkingar.“
Bryndís viðurkennir að aðstæður hér á landi eru ekki sambærilegar við það sem þekkist erlendis.
„Að sjálfsögðu munum við gera allt sem við getum en þetta eru atriði sem við höfum verið að ræða fram og til baka. Við getum ekki ætlast til þess að íslenskir starfsmenn Rauða-krossins fari þarna út og síðan þyrftum við að taka á móti fólki sem hugsanlega hefur veikst. Norðmenn eru með tuttugu til þrjátíu manns þarna úti á vegum Lækna án landamæra og það hefur verið mikil umræða um þetta þar í landi. Hjúkrunarfræðingurinn (í Noreg) fékk síðasta skammtinn af lyfi sem framleitt er í San Diego. Síðan eru þrjú til fjögur önnur lyf sem hafa verið notuð á nokkrum einstaklingum, en þetta eru lyf sem hafa verið þróuð fyrir aðrar veirur og við vitum lítið hvað kemur út úr því.“

Bryndís segir að það sem hafi gerst á Spáni sé alvarlegra en þar sé um að ræða heilbrigðisstarfsmann sem veiktist í fríi og tilkynnti það ekki strax inn.
„Á Spáni er núna mikil umræða um þau mannlegu mistök sem komu þar upp. Þetta eru ógnvænlegar fréttir og manni líður ekki vel á kvöldin þegar maður er að lesa það sem fram kemur á internetinu, ég verð að viðurkenna það. Ég myndi segja að þetta væri áhyggjuefni og það var ekki mín skoðun fyrir nokkrum mánuðum. Mér finnst aðstæður hafa breyst mikið. Það sem ég er að segja er nákvæmlega það sem heilbrigðisstarfsfólk í Evrópu er að hugsa í hljóði eða ræða sín á milli. Undirliggjandi er töluverður órói.“
Bryndís segir það mjög alvarlegt að fram hafa komið svartsýnisspár frá Alþjóðaheilbrigðisvöldum.
„Þar koma fram mjög raunsæjar yfirlýsingar um það hversu hratt þetta getur breiðst út ef við gerum ekki eitthvað í málinu.“