Innlent

Hraunið að verða stærra en úr Heklugosinu 1947

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hraunflæðið frá eldstöðinni er á við rennsli Þjórsár.
Hraunflæðið frá eldstöðinni er á við rennsli Þjórsár. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Hraunið sem myndast hefur er með þeim stærstu sem runnið hafa á Íslandi í langan tíma,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í yfirliti sem birt var í gærkvöldi á vef Jarðvísindastofnunar um gosið í Holuhrauni. Það hefur nú staðið þrjár vikur og er ekkert lát á krafti þess.

„Ef skoðuð eru gos síðustu 150 ára, er aðeins hraunið sem myndaðist í Heklugosinu 1947-48 stærra, 0,8 rúmkílómetrar, en það gos stóð í 13 mánuði.  Ef gosið Holuhrauni heldur áfram með sama krafti og verið hefur gæti það náð 0,8 rúmkílómetrum eftir tvær vikur,“ segir Magnús Tumi.

Meðalhraunflæðið þessar þrjár vikur hefur samkvæmt nýrri mælingu verið á bilinu 230-350 rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar er meðalrennsli Þjórsár við Urriðafoss um 350 rúmmetrar á sekúndu og Ölfusár við Selfoss um 370 rúmmetrar á sekúndu.

Hraunjaðarinn kominn út í Jökulsá á Fjöllum. Dyngjujökull í baksýn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Vettvangshópur Jarðvísindastofnunar mældi á föstudag og laugardag þykktir hraunsins í 12 sniðum allt frá gígum að jaðrinum við Jökulsá.  Naut hópurinn aðstoðar mælingamanna frá Landsvirkjun. Jaðrar hraunsins eru að meðaltali 8 m háir norðan megin en mest er þykktin á miðlínu hraunsins, segir á vef Jarðvísindastofnunar. 

Ef farið er eftir miðlínunni frá gígum til austsuðaustur að jaðri við Jökulsá, er þykktin mest næst gígunum um 30 metrar, en 18-22 metrar víðast hvar annarstaðar.  Meðalþykktin er nú nú talin vera 14 metrar.

Útbreiðsla nýja hraunsins.Kort/Jarðvísindastofnun HÍ.
Samkvæmt korti sem Ingibjörg Jónsdóttir á Jarðfræðistofnun hefur sett saman á grundvelli nýjustu gagna var flatarmál hraunsins um 37 ferkílómetrar á laugardag,  Rúmmálið er metið sem margfeldi þykktar og flatarmáls og niðurstaðan er um 0,5 rúmkílómetrar.  Óvissan er allavega 0.1 rúmkílómetri til eða frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×