Fótbolti

Stórleikur Guðmundar dugði ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur átti frábæran leik en það dugði ekki til.
Guðmundur átti frábæran leik en það dugði ekki til. Heimasíða Sarpsborgar
Guðmundur Þórarinsson skoraði og lagði upp mark fyrir Sarpsborg 08 í leik gegn Odd BK í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar í fótbolta. Það dugði hins vegar ekki til því Odd vann leikinn 5-2.

Sarpsborg tók forystuna á 37. mínútu. Guðmundur vippaði boltanum þá glæsilega inn fyrir vörn Odd, á Serbann Bojan Zajic sem skoraði framhjá markverðinum André Hansen, fyrrverandi leikmanni KR.

Staðan var 1-0 í hálfleik, en Odd sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik.

Eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik braut Joackim Thomassen á Frode Johnsen, hinum fertuga framherja Odd, innan vítateigs og fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Herolind Shala skoraði úr vítaspyrnunni og jafnaði metin.

Ole Halvorsson kom Odd svo yfir á 58. mínútu og átta mínútum síðar skoraði Johnsen þriðja markið með góðu skoti. Shala skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark Odd með skoti af stuttu færi á 71. mínútu.

Guðmundi tókst að klóra í bakkann þegar hann skoraði með föstu skoti á 77. mínútu. Selfyssingurinn var svo nálægt að skora sitt annað mark í uppbótartíma þegar leikmaður Odd bjargaði á línu eftir skot hans beint úr aukaspyrnu.

En Odd átti síðasta orðið þegar Halvorsen skoraði í uppbótartíma eftir skyndisókn. Lokatölur 5-2, Odd í vil en liðið mætir Molde í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×