Fyrirtaka var í máli Sigurðar Inga Þórðarsonar, oft nefndur Siggi hakkari, í Héraðsdómi Reykjaness í dag en þá lagði ákæruvaldið fram vitnalista.
Sigurður er sakaður um stórfelldan fjárdrátt, fjársvik og þjófnað. Þýfi hans og svik eru metin á þrjátíu milljónir króna. Ákæruliðirnir eru átján og skipta undirliðirnir tugum.
Sigurður er sagður hafa svikið út vörur og þjónustu auk þess að hafa blekkt fólk til að millifæra umtalsverðar upphæðir á bankareikninga sína á fölskum forsendum.
Í ákærunni í málinu kemur fram að hann sé einnig sakaður um að hafa staðið í reikningsviðskiptum fyrir hönd fyrirtækja sem hann átti ekki hlut í. Meðal annars er Sigurður sagður hafa svikið út leigu á bílum fyrir um tíu milljónir og eldsneyti fyrir eina milljón króna.
Þá á hann að hafa keypt fjórar fartölvur, níu iPhone farsíma, heimabíó, myndavélar og spjaldtölvu. Þetta gerði hann með greiðslukortum og á prókúru fyrirtækjanna.
