Keppnin á morgun verður því gríðarlega spennandi, allra augu verða á Mercedes mönnum í fyrstu beygju.
Tímatakan á Ítalíu er með þeim mikilvægari á tímabilinu. Í 11 af síðustu 14 keppnum hefur ökumaðurinn á ráspól unnið keppnina.
Í fyrstu lotunni duttu út Pastor Maldonado og Romain Grosjean á Lotus, Max Chilton og Jules Bianchi á Marussia og Marcus Ericsson og Kamui Kobayashi á Caterham.
Margir ökumenn áttu í vandræðum með að halda hita í bremsunum enda langt á milli bremsusvæða. Toro Rosso liðið þurfti að nota mýkri dekkjagerðina til að tryggja þátttöku sína í annari lotu. Aðrir spöruðu einn gang af þeim til að eiga inni seinna.

Kvyat getur þó tekið út sína tíu sæta refsingu á Ítalíu. Toro Rosso settu sjöttu vélina um borð í bíl hans fyrir kappaksturinn á Ítalíu. Ef hann hefði ekki náð að komast nógu ofarlega til að hægt væri að færa hann aftur um tíu sæti þyrfti hann að taka afganginn út í næstu keppni í Singapore.
Hver ökumaður má einungis nota fimm vélar á tímabilinu áður hann fær refsingar. Kvyat er fyrsti ökumaðurinn í ár til að hljóta slíka refsingu. Samkvæmt Christian Horner liðsstjóra Red Bull er stutt í að Sebastian Vettel þurfi að sætta sig við sömu refsingu á Kvyat.
Í þriðju lotu glímdu tíu hröðustu ökumenn dagsins. Baráttan var á milli Mercedes og Williams. Hamilton náði ótrúlegum hring í fyrri tilraun lotunnar sem enginn gat ógnað. Rosberg reyndi sitt besta og komst aðeins nær en enginn sá við Hamilton í dag.
„Ég hlakka til morgundagsins. Mínir menn í bilskúrnum hafa gengið í gegnum margt með mér undanfarið og staðið sig gríðarlega vel. Gott fyrir liðið að ná fyrsta og öðru sæti í tímatökunni,“ sagði Hamilton eftir tímatökuna.
„Gott fyrir liðið að ná fremstu ráslínunni. Mikilvægt að hrista af sér það sem er liðið og einbeita sér að því sem á eftir að gerast,“ sagði Rosberg.
„Ég vona að við getum strítt Mercedes á morgun. Við erum góð í keppninni. Vonandi eigum við einhver tromp á morgun,“ sagði Bottas eftir tímatökuna.

1.Lewis Hamilton - Mercedes
2.Nico Rosberg - Mercedes
3.Valtteri Bottas - Williams
4.Felipe Massa - Williams
5.Kevin Magnussen - McLaren
6.Jenson Button - McLaren
7.Fernando Alonso - Ferrari
8.Sebastian Vettel - Red Bull
9.Daniel Ricciardo - Red Bull
10.Sergio Perez - Force India
11.Kimi Raikkonen - Ferrari
12.Jean-Eric Vergne - Toro Rosso
13.Nico Hulkenberg - Force India
14.Adrian Sutil - Sauber
15.Esteban Gutierrez - Sauber
16.Pastor Maldonado - Lotus
17.Romain Grosjean - Lotus
18.Kamui Kobayashi - Caterham
19.Jules Bianchi - Marussia
20.Max Chilton - Marussia
21.Daniil Kvyat - Toro Rosso - endaði 11. en færður aftur um 10 sæti
22.Marcus Ericsson - Caterham
Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á Stöð 2 Sport á morgun.