Íslenski boltinn

Ólafur: Það er enginn saddur í Garðabænum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Úr leik Stjörnunnar fyrr á árinu.
Úr leik Stjörnunnar fyrr á árinu. Vísir/Arnþór
„Þetta er stærsti og skemmtilegasti leikur ársins, umgjörðin gerir þetta að stærsta leik ársins,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar fyrir leik liðsins gegn Selfoss í bikarúrslitum í dag.

„Stemmingin er góð í hópnum, við erum búin að bíða eftir þessum leik. Þótt við höfum einbeitt okkur að deildinni þá situr þetta alltaf í manni svo það er mikil eftirvænting.“

Stjarnan situr á toppi Pepsi-deildarinnar og stefnir hraðbyri að öðrum Íslandsmeistaratitlinum í röð og þeim þriðja á fjórum árum.

„Það er búið að ganga vel en það getur verið erfitt að halda áfram, leikmennirnir verða værukærir. Við þurfum að halda okkur á tánum, bæði leikmenn og þjálfarar því þetta verður erfiður leikur og það er mánuður eftir af Íslandsmótinu.“

Stjarnan vann fyrri leik liðanna í Pepsi-deildinni 5-3 í bráðfjörugum leik.

„Það var heldur betur skemmtilegur leikur, fullt af mörkum og skemmtilegur fyrir áhorfendur. Ég vona að leikurinn í dag verði jafn skemmtilegur fyrir áhorfendur, við munum halda okkar plani og reyna að leika okkar leik, það hefur gengið vel hingað til.“

Þegar flautað verður til leiks verður það í fjórða skiptið sem Stjarnan keppir í bikarúrslitum en liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið 2012.

„Það er enginn saddur í Garðabænum, við viljum ná þessum bikar. Það var gaman síðast þegar við unnum bikarinn og sú stemming lifir í höfðinu á fólki. Það verður allt gert til þess að endurtaka það í dag.“


Tengdar fréttir

Allt Suðurlandið styður okkur

Selfoss leikur í dag í fyrsta sinn í sögu félagsins til úrslita í bikarnum. Þrjátíu ár eru síðan kvennalið Selfoss sigraði Stjörnuna en fyrirliði liðsins telur að það séu helmingslíkur hver ber sigur úr býtum í Laugardalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×