Sport

Metaregn á NM í kraftlyftingum í Njarðvík

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sterkur Auðunn
Sterkur Auðunn vísir/valli
Ísland eignaðist þrjá norðurlandameistara í samanlögðu í kraftlyftingum í gær á norðurlandamótinu sem fram fer í íþróttahúsinu í Njarðvík. Að auki féllu tvö heimsmet í ljónagryfjunni.

Svíinn Calle Nilsson setti drengjamet í bekkpressu þegar hann lyfti 290 kg. í 120 kg. flokki.

Í +120 kg. flokki börðust Fredrik Svensson frá Svíþjóð og Kenneth Sandvik frá Finnlandi um heimsmetið í bekkpressu og fór svo að Sandvik hafði betur þegar hann lyfti 371 kg., hálfu kílógrammi meira en Svensson.

Auðunn Jónsson varð norðurlandameistari í samanlögðu í 120 kg. flokki. Hann lyfti 360 kg. í hnébeygju, 250 kg. í bekkpressu og 335 kg. í réttstöðulyftu sem gera 945 kg. samanlagt.

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir vann í -57 kg. flokki en hún tók 150 kg. í hnébeygju, 87,5 kg. í bekkpressu og 162,5 kg. í réttstöðulyftu eða 400 kg. samanlagt.

Þriðji íslenski norðurlandameistarinn var Sindri Freyr Arnarsson í 74 kg. flokki. Hann lyfti 207,5 kg. í hnébeygju, 165 kg. í bekkpressu og 212,5 kg. í réttstöðulyftu eða 585 kg. samanlagt.

Alexandra Guðlaugsdóttir varð önnur í 84 kg. flokki og Rósa Birgisdóttir tók sömuleiðis silfur í +84 kg. flokki.

Hörður Birkisson varð annar í 74 kg. flokki, Halldór Eyþórsson vann brons í 83 kg. flokki, Aron Lee Du Teitsson náði silfri í 93 kg. flokki, Viktor Samúelsson tók brons í 120 kg. flokki og Sigfús Fossdal fékk brons í +120 kg. flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×