Fótbolti

Bale dreymir um sex titla á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Vísir/Getty
Gareth Bale, velski landsliðsmaðurinn hjá Real Madrid, hefur sett spænska liðiinu metnaðarfullt markmið á þessu tímabili sem er það að vinna alla sex titlana í boði.

Real Madrid vann tvo titla á fyrsta tímabili Gareth Bale, spænska bikarinn og Meistaradeildina en hann skoraði í báðum úrslitaleikjunum.

Fyrsti titill tímabilsins getur dottið inn í kvöld þegar Real Madrid mætir Sevilla í Ofurbikar UEFA þar sem mætast sigurvegarar Evrópukeppnanna á síðasta tímabili. Leikurinn fer fram í Cardiff, heimaborg Gareth Bale.

„Við viljum vinna alla titla í boði og setum stefnuna á það á þessu tímabili," sagði Gareth Bale við BBC en Real Madrid keppir í Heimsmeistarakeppni félagsliða og spænska Ofurbikarnum í viðbót við hinar hefðbundnu keppnir á Spáni.

„Það er góð tilfinning að vera ekki lengur nýi strákurinn. Ég hef náð að aðlagast liðinu og það gekk vel á undirbúningstímabilinu. Það er miklu auðveldara að koma inn í tímabilið þegar maður er búinn að klára gott undirbúningstímabil í stað þess að bíða eftir að félagsskipti gangi í gegn eins og í fyrra," sagði Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×