Erlent

Leikarinn sem fór úr fókus

Birta Björnsdóttur skrifar
Á meðfylgjandi myndskeiði  hljómar ein eftirminnilegasta setning leikarans Robin Williams af hvíta tjaldinu úr kvikmyndinni Good Morning Vietnam.

Robin Williams fæddist í Chicago árið 1951 og var því 63 ára er hann lést. Hann lærði leiklist í Julliard-skólanum í New York og vakti fyrst athygli í sjónvarpsþættinum Mork og Mindy á áttunda áratugnum.

Það væri til að æra óstöðugan að telja upp öll afrek Williams á hvíta tjaldinu á farsælum leikferli en ljóst þykir að hann þótti jafnvígur á gamanleik, í myndum á borð við Mrs. Doubtfire og sem leikarinn sem fór úr fókus í Deconstructing Harry, og dramatískari hlutverk, eins og í Dead Poets Society, Patch Adams og Good Will Hunting, en fyrir þá síðastnefndu fékk hann Óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverki.

Þá ljáði hann Andanum í Disney-myndinni um Aladdín rödd sína eftirminnilega, en fyrir það hlaut hann ein af sex Golden Globe verðlaunum sínum á ferlinum.

Williams hafði glímt við eiturlyfja og áfengisfíkn í gegnum tíðina og hafði átt við alvarlegt þunglyndi að stríða um nokkurt skeið.

Williams fannst látinn á heimili sínu í Kaliforníu í gær og ljóst þykir að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.

Fjölmargir minntust Williams á samskiptamiðlum í dag, þeirra á meðal forseti Bandaríkjanna.

Vinir hans minnast hæfileikaríks leikara sem skilur eftir sig spor í kvikmynda- og sjónvarpssögunni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×