Íslenski boltinn

Fylkir aftur á sigurbraut

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Fylkisstúlkur fagna hér marki fyrr í sumar.
Fylkisstúlkur fagna hér marki fyrr í sumar. Vísir/Daníel
Fylkir vann nokkuð náðugan 3-0 sigur á ÍBV í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Sigurinn var sá fyrsti hjá Fylkisliðinu í síðustu þremur leikjum.

Gestirnir úr Vestmannaeyjum byrjuðu leikinn betur og náðu Fylkiskonur óvænt forskotinu eftir tólf mínútna leik þegar Ruth Þórðar Þórðardóttir skoraði fyrsta mark leiksins. Ruth, sem átti góðan leik á miðjunni hjá þeim appelsínugulu, smellhitti boltann þá langt utan teigs og hafnaði hann efst í markhorninu. Stórbrotið mark!

Fylkiskonur voru sterkari aðilinn og gekk gestunum frá Eyjum illa að skapa sér færi. Shaneka Gordon fékk úr litlu að moða og annar lykilmaður liðsins, Vesna Smiljkovic, átti erfitt uppdráttar. Munar um minna hjá þeim hvítklæddu.

Markadrottningin 33 ára, Anna Björg Björnsdóttir, gerði síðan endanlega út um leikinn í seinni hálfleik með tveimur mörkum á aðeins fimm mínútum. Mörkin voru keimlík þar sem framherjinn lúrði á fjærstöng og setti boltann í netið eftir klaufagang í vörn ÍBV.

Saga Huld Helgadóttir, miðvörður ÍBV, lék sinn síðasta leik fyrir Eyjakonur í bili en þessi 23 árs gamli miðvörður er á leiðinni til Svíþjóðar í nám.

Með sigrinum skaust Fylkir tímabundið hið minnsta upp í 3. sæti en ÍBV situr áfram í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×