Fótbolti

Tígrarnir gerðu jafntefli í frumraun liðsins í Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steve Bruce og Tom Huddlestone svekktir eftir tapið í bikarnum í vor.
Steve Bruce og Tom Huddlestone svekktir eftir tapið í bikarnum í vor. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Hull City Tigers spilaði sinn fyrsta Evrópuleik í gær þegar liðið mætti Trencin frá Slóvakíu í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Hull hafnaði í öðru sæti ensku bikarkeppninnar í fyrra og þar sem Arsenal, sem varð bikarmeistari, komst í Meistaradeildina fengu nýliðarnir sæti í Evrópudeildinni, en þar hefur liðið aldrei spilað áður.

Flestir bjuggust við öruggum sigri enska liðsins, og það fékk dauðafæri til að komast yfir á 60. mínútu þegar Tom Huddlestone steig á vítapunktinn. Honum brást þó bogalistin því spyrnan var varin.

„Nú erum við búnir að klúðra síðustu þremur vítaspyrnunum okkar þannig ég held að við þurfum að fara að æfa okkur. Við verðum að nýta færin sem við fáum,“ sagði Steve Bruce, knattspyrnustjóri Hull eftir leikinn.

„Við þurftum samt á svona leik að halda. Það eru bara tvær og hálf vika síðan við hófum æfingar. Það er alltaf erfitt að spila svona leiki á miðju undirbúningstímabili, en í heildina vorum við betri í leiknum.“

Slóvakíska liðið heimsækir KC-völlinn næsta fimmtudag og dugar jafntefli til að komast áfram á útivallamarkareglunni.

Trencin kom upp í úrvalsdeildina í Slóvakíu fyrir þremur árum, en það hafði í öðru sæti í henni á síðustu leiktíð. Liðið hefur aldrei unnið hvorki deild né bikar í Slóvakíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×