Erlent

Segir Rússa hafa rifið reglubókina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fór fram á að NATO endurskoðaði samband sitt við Rússland í kjölfar „ólöglegra aðgerða“ Rússa í Úkraínu.

Þetta kom fram í bréfi Camerons sem hann sendi leiðtogum NATO-ríkjanna nú í morgun. Í bréfinu segir hann Rússa líta á NATO-ríkin sem fjandmenn sína og að sambandið verði að vera betur í stakk búið til að mæta hvers kyns ógnum.

„Við verðum að horfa í augu við það að samvinna síðustu ára er ekki lengur uppi á borðinu eftir ólöglegar aðgerðir Rússa í umdæmi NATO og að við verðum að endurskoða reglurnar sem lúta að samskiptum okkar við Rússland,“ segir forsætisráðherra í bréfinu.

Ummæli Camerons koma í kjölfar skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum breska þingsins. Þar kom meðal annars fram að framferði Rússa í austurhluta Úkraínu vekti alvarlegar spurningar um getu NATO til að bregðast við árásum á hendur aðildarríkja sambandsins.

Atburðarás síðustu mánaða í Úkraínu „hafi opinberað illviðráðanlega vankanta á viðbragðsgetu NATO, sem erfitt verður að laga,“ sagði nefndin.

Cameron sagði einnig að heimurinn væri óútreiknanlegri nú en áður eftir að „Rússland reif reglubókina með ólöglegri innlimun Krímskagans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×