Íslenski boltinn

Aldís Kara með þrennu á móti uppeldisfélaginu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Kara Lúðvíksdóttir.
Aldís Kara Lúðvíksdóttir. Vísir/Andri Marinó
Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Breiðablik í kvöld þegar Blikakonur unnu 6-1 útisigur á FH í lokaleik 12. umferðar Pepsi-deildar kvenna.

Breiðablik styrkti þar með stöðu sína í öðru sæti deildarinnar en Blikar eru með fjögurra stiga forskot á lið Vals og Þór/KA sem koma í næstu sætum á eftir. Blikakonur náðu einnig að minnka forskot toppliðs Stjörnunnar í átta stig.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir kom Breiðabliki í 1-0 strax á 11. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Guðrún Arnardóttir bætti við öðru marki á 52. mínútu en Elva Björk Ástþórsdóttir minnkaði muninn tveimur mínútum síðar.

Aldís Kara Lúðvíksdóttir, sem var þarna að mæta sínu uppeldisfélagi, skoraði þrisvar á síðustu 35 mínútum leiksins, fyrsta mark hennar kom á 55. mínútu, það annað á 71. mínútu og hún innsiglaði síðan þrennuna á 87. mínútu.

Aldís Kara, sem er tvítug, hefur þar með skorað fimm mörk í tveimur leikjum á móti sínu gamla liði í sumar því hún skoraði tvö mörk í 13-0 sigri í fyrri leiknum.

Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fimmta markið á 77. mínútu og Blikakonur skoruðu því 19 mörk í tveimur leikjum við FH í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×