Sport

Tour de Ormurinn haldinn í þriðja sinn

Tour de Ormurinn fer fram um þarnæstu helgi.
Tour de Ormurinn fer fram um þarnæstu helgi. UÍA
Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin í þriðja sinn laugardaginn 9. ágúst. Í keppninni verður hjólað umhverfis Lagarfljótið. Keppnisvegalengdirnar eru tvær, 68 km hringur og 103 km.

Keppt verður í flokkum karla og kvenna í báðum vegalengdum. Í þeirri styttri verður hægt að taka þátt í liðakeppni þar sem þrír einstaklingar keppa saman.  

Í fyrra sigraði Þórarinn Sigurbergsson í 103 km keppninni á tímanum 3:49,55 klst og setti með þar með brautarmet. Í 68 km vegalengdinni sigraði Hafliði Sævarsson á tímanum 2:30,19 og setti þar með brautarmet.

Í 68 km kvennaflokki sigraði Stefanía Gunnarsdóttir á tímanum 2:59,14. Í liðakeppninni sigruðu Hilmar Gunnlaugsson, Sigurður Magnússon og Ívar Ingimarsson á tímanum 2:39,28

Ræst verður kl. 09:00 á laugardagsmorgun við þjóðveg 1 fyrir neðan N1 á Egilsstöðum  og hjólað útí fell og þaðan í kringum Lagarfljótið.

Í styttri hringnum er beygt yfir Jökulsá í Fljótsdal neðan við Hengifoss, en í lengri hringnum er haldið áfram alla leið inn í dalbotn í Fljótsdal.

Endamark er á sama stað og keppnin er ræst. Búist er við fyrstu keppendum í 68 km hringnum í mark eftir rúma tvo klukkutíma, en eftir tæpa fjóra úr lengri hringnum.

Það eru Austurför, UÍA og sveitarfélagið Fljótsdalshérað sem standa að keppninni.

Skráning og nánari upplýsingar eru á www.traveleast.is og á www.facebook/tourdeormurinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×