Erlent

Flugi Malaysia Airlines grandað: Samkeppnisaðili biðst afsökunar á ummælum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/AFP

Singapore Airlines hefur beðist afsökunar á yfirlýsingum flugfélagsins á samskiptamiðlum eftir að vél Malaysia Airlines var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu á fimmtudag.

Örfáum klukkustundum eftir að MH17 var grandað, með þeim afleiðingum að allir 298 farþegar vélarinnar létust, skrifaði singapúrska flugfélagið á Facebook og Twitter-síður sínar að flugvélar þessi flygju ekki í úkraínskri lofthelgi.



Yfirlýsingarnar ollu ólgu meðal netverja sem ráku augun í færslurnar og gagnrýndu þeir flugfélagið harðlega fyrir að votta aðstandendum þeirra látnu ekki samúð sína í stað þess að reyna að hagnast á hryðjuverkunum. Ekki bætir úr skák að Singapore Airlines og Malaysia Airlines eru harðir samkeppnisaðilar.

Í yfirlýsingu sem Singapore Airlines sendi frá sér í gær segir meðal annars, "Við gerum okkur grein fyrir því að skrif okkar á Twitter og Facebook gætu hafa móðgað einhverja,“ og bætt er við að fyrirtækið hafi fengið margar fyrirspurnir í kjölfar tíðinda fimmtudagsins sem snéru að flugleiðum félagsins.

"Við áttum okkur á því að upplýsingunum sem við vildum koma á framfæri hefði mátt koma betur til skila og við biðjumst afsökunar á því hafa móðgað viðskiptavina okkar og aðra í netheimum.“

Hér að neðan má sjá tilraun flugfélagsins til að bæta upp fyrir fyrri skrif. Full seint í rassinn gripið segja sumir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×