Erlent

Byrjað að flytja líkamsleifar frá Úkraínu til Hollands

Heimir Már Pétursson skrifar
Fyrstu sextán líkkisturnar bornar um borð í flugvél hollenska hersins með viðhöfn. Hollendingar heita því að bera kennsl á fólkið eins fljótt og verða má.
Fyrstu sextán líkkisturnar bornar um borð í flugvél hollenska hersins með viðhöfn. Hollendingar heita því að bera kennsl á fólkið eins fljótt og verða má. vísir/afp
Flutningar á jarðneskum leifum fólksins sem fórst með Malaysian flugvélinni í Úkraínu í síðustu viku hófust í morgun.

Sextán líkkistur voru í morgun fluttar með viðhöfn og heiðursverði úkraínskra hermanna um borð í Herkules flugvél hollenska hersins á flugvellinum í Kharkiv í austurhluta Úkraínu. Flogið verður með kisturnar í Eindhoven í Hollandi þar sem unnið verður að því að bera kennsl á fólkið.

Líkamsleifar um tvö hundruð farþega voru fluttar í kældum lestarvögnum frá vettvangi á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í gær.

Hans Docter fulltrúi frá hollenska sendiráðinu í Kænugarði sagði í stuttu ávarpi á Kharkiv flugvelli í morgun að með þessum flutningum til Eindhoven hæfist ferðlalag hinna látnu heim á leið. Það yrði langt ferðalag og framundan væri sársaukafullt ferli við að bera kennsl á hina látnu. Hollensk stjórnvöld hétu því hins vegar að bera kennsl á fólkið eins fljótt og auðið væri og með virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra sem létu lífið.

Síðar í dag mun Herkules flugvél frá kanadíska flughernum fljúga með líkamsleifar fleiri farþega til Hollands.

Volodymyr Groysman aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu sagði við athöfnina í morgun að árásin á flugvélina hefði verið villmannslegt hryðjuverk sem framið hefði verið með hjálp Rússa. Stjórnvöld í Úkraínu myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að draga hina seku fyrir dóm.

Rússar segja hins vegar að  Petro Poroshenko forseti Úkraínu beri ábyrgð á örlögum flugvélarinnar og farþega hennar með því að neita að framlengja vopnahlé í átökunum við aðskilnaðarsinna og þvertaka fyrir að Rússar hafi sutt hernaðaraðgerðir þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×