Erlent

Vilja taka HM í fótbolta af Rússum

Atli Ísleifsson skrifar
Michael Fuchs og aðrir samflokksmenn Angelu Merkel kanslara segja að ákvörðun um að taka HM í fótbolta af Rússum myndi hafa meiri áhrif á rússnesk stjórnvöld en viðskiptaþvinganir.
Michael Fuchs og aðrir samflokksmenn Angelu Merkel kanslara segja að ákvörðun um að taka HM í fótbolta af Rússum myndi hafa meiri áhrif á rússnesk stjórnvöld en viðskiptaþvinganir. Vísir/AFP
Þýskir stjórnmálamenn hafa nú margir varpað fram þeirri spurningu hvort rétt sé að taka HM í fótbolta 2018 af Rússum eftir að MH17 vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu í síðustu viku.

ESB hyggst koma á viðskiptaþvingunum gegn Rússum vegna atburðarins og stuðnings Rússlandsstjórnar og hersins við aðskilnaðarsinna í Úkraínu.

Michael Fuchs, þingmaður og samflokksmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, segir ákvörðun um að taka heimsmeistaramótið af Rússum myndi hafa mun meiri áhrif en viðskiptaþvinganir.

„FIFA ætti að huga að því hvernig Rússland geti talist viðeigandi gestgjafi mótsins ef ekki er einu sinni hægt að tryggja öruggar flugleiðir,“ segir Fuchs í samtali við Handelsblatt og bætir við að Þýskaland eða Frakkland gæti tekið að sér að halda mótið.

MH17 vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu þann 17. júlí á svæði sem aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar ráða yfir. 298 manns fórust í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×