Erlent

Misstu samband við vél Air Algerie

Atli Ísleifsson skrifar
110 farþegar og sex áhafnarmeðlimir voru um borð í vélinni sem var á leið frá Búrkína Fasó til Algeirsborgar.
110 farþegar og sex áhafnarmeðlimir voru um borð í vélinni sem var á leið frá Búrkína Fasó til Algeirsborgar. Vísir/AFP
Air Algerie, ríkisflugfélag Alsír, hefur misst samband við eina vél sína um fimmtíu mínútum eftir að vélin tók á loft í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó.

Að sögn ríkisfréttastofu Alsírs var AH 5017 á leið til Algeirsborgar. Á vef Reuters segir að 110 farþegar og sex áhafnarmeðlimir hafi verið um borð í vélinni, sem er af gerðinni DC-9. Flugvélagið flýgur milli Ouagadougou og Algeirsborgar fjórum sinnum í viku.

Á vef USA Today segir að ekki sé ljóst hver flugleið AH 5017 hafi verið. Ougadougou sé þó beinni línu suður af Alsír og liggur því yfir Malí þar sem átök hafa staðið yfir í norðurhluta landsins að undanförnu.

Að sögn BBC var vélin á leigu frá spænska flugfélaginu Swiftair.

Heimildarmaður AFP hjá Air Algerie sagði vélina ekki hafa verið langt frá alsírslu landamærunum þegar stjórnstöð missti samband við vélina. Segir hann flugmanninn hafa verið beðinn um að taka krók vegna slæms skyggnis og til að forðast árekstur við aðra vél á leið frá Algeirsborg til Bamoko, höfuðborgar Malí. Misstu menn samband við vélina fljótlega eftir að hún breytti um flugleið.

Herflugvél með 77 manns um borð fórst í Alsír í febrúar síðastliðinn. Hercules C-130 vélin flaug á fjall í Oum al-Bouaghi héraði á leið til Constantine, en sérstaklega slæmt veður var á staðnum. Einn maður um borð komst lífs af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×