Íslenski boltinn

Íris Dögg: Kannski óréttlátt en virði ákvörðunina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Stefán
Íris Dögg Gunnarsdóttir hefur verið lánuð í FH eins og Vísir greindi frá í dag. Var það niðurstaðan eftir að landsliðsmarkvörðurinn Þóra B. Helgadóttir varð gjaldgeng með liði Fylkis.

Í dag var opnað fyrir félagaskipti á Íslandi og fékk því Þóra leikheimild í dag með Fylki. Hún mun því í kvöld spila sinn fyrsta deildarleik hér á landi síðan hún hélt í atvinnumennsku árið 2006.

„Mér líst ekkert illa á að fara í FH. Þetta er lið sem lítur vel út og hefur verið að styrkjast mikið á síðustu árum. Það er björt framtíð í Hafnarfirðinum,“ sagði Íris Dögg í samtali við Vísi í dag.

Hún neitar því þó ekki að finnast leiðinlegt að fara frá Árbænum nú en hún hefur haldið hreinu í sex af átta deildarleikjum Fylkis í sumar og hefur liðið fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni.

„Ég hef þekkt þessar stelpur lengi og auðvitað er erfitt að fara úr aðstæðum sem maður er vanur og þekkir vel. En maður verður bara að taka þessu.“

„Að einhverju leyti finnst mér þetta óréttlátt en þetta er það sem þjálfaranum fannst best að gera. Ég verð að virða ákvörðun hans.“

Íris Dögg er samningsbundin Fylki til loka næsta tímabils og veit ekki hvað tekur við hjá sér að tímabilinu loknu. „Það verður bara að ráðast. Ég veit að Fylkir myndi samþykkja að rifta samningi mínum eftir tímabilið ef ég óska þess en við ætlum að ræða þau mál í haust.“

FH hefur fengið á sig flest mörk allra liða í sumar eða 30 talsins í níu leikjum. „Þetta á eftir að reyna á mig. Nú kemst maður að því úr hverju maður er gerður.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×