Formúla 1

McLaren verður án FRIC fjöðrunar í Þýskalandi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Button á Silverstone, McLaren menn verða án FRIC fjöðrunar í Þýskalandi um helgina.
Button á Silverstone, McLaren menn verða án FRIC fjöðrunar í Þýskalandi um helgina. Vísir/Getty
McLaren liðið hefur staðfest að það muni fjarlægja FRIC fjöðrunina úr sínum bílum fyrir þýska kappasturinn.

Liðið varð fyrsta Formúlu 1 liðið til að staðfesta að það muni hlýta niðurstöðu FIA um að samtvinnuð fram og aftur fjöðrun (FRIC) sé ólögleg. Líklega munu fleiri lið fylgja á eftir.

FRIC fjöðrun er þannig hönnuð að bíllinn hallar í raun aldrei mikið fram við hemlun eða mikið aftur við hraðaaukningu. Fram og aftur fjöðrun bílsins hjálpast að við að halda honum eins stöðugum og hægt er.

Slík fjöðrun er álitin stýra loftflæði yfir bílinn. Það má einungis gera með vissum viðbótum við yfirbyggingu hans. Ekki má nota fjöðrunarbúnað bílsins til slíks brúks.

„McLaren ætlar að svo stöddu ekki að notast við FRIC fjöðrunarkerfi í þýska kappakstrinum. McLaren mun fylgja úrskurði FIA um málið,“ er haft eftir talsmanni liðsins.

Stýrihópur innan Formúlu 1 hefði getað ákveðið að fella úrskurð FIA úr gildi. Til hefði þurft einróma samþykki innan hópsins. Niðurstaðan varð hins vegar sú að úrskurður FIA stendur.

Lið sem notast við slíkan fjöðrunarbúnað í Þýskalandi á því á hættu að verða dæmt úr keppni að því gefnu að annað lið kvarti til FIA. Líklega munu því öll lið sleppa því að nota FRIC fjöðrun í Þýskalandi.


Tengdar fréttir

Rosberg er ekki Þjóðverji

Bretinn Lewis Hamilton er heldur betur búinn að kynda bálið fyrir þýska kappaksturinn í Formúlu 1.

Bílskúrinn: Kristjáns-horn og klöguskjóður

Eftir gríðarlega spennandi breskan kappakstur þar sem heimamaðurinn Lewis Hamilton hjá Mercedes vann er kominn tími til að skoða Bílskúrinn, léttu hliðina á Formúlu 1 á Vísi.

Bottas: Mercedes gæti fundið fyrir FRIC banni

Valtteri Bottas, ökumaður Williams telur að Mercedes liðið verði fyrir mestum áhrifum ef tengd fram og aftur fjöðrun (FRIC) verður bönnuð. Bottas telur að bannið myndi ekki hafa áhrif á Williams liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×