Íslenski boltinn

Mist dregur sig úr landsliðshópnum vegna krabbameins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Mist Edvardsdóttir er hér fyrir miðju í treyju númer 21.
Mist Edvardsdóttir er hér fyrir miðju í treyju númer 21. KSÍ/Hilmar Þór
Mist Edvardsdóttir sem dró sig úr landsliðshópnum í dag var greind með krabbamein í eitlunum á dögunum en þetta kemur fram í viðtali við Mist á Fotbolti.net.

„Ég spilaði svo gegn Stjörnunni 10. júní og fór í landsliðsferðina. Mér leið mjög vel líkamlega og andlega svo þetta hefur ekki haft áhrif á mig.“ sagði Mist.

„Æxlið sem ég er með er rúmir 14 cm í þvermál, staðsett í hálsinum og vex niður í miðmætið, við hjartað. Það veldur svolitlum öndunarerfiðleikum við erfiðar þolæfingar því það pressar svo á öndunarveginn. Fyrir utan það þá trufla veikindin ekkert fótboltann.“

Mist sem leikur með Val hefur nú aðra baráttu en hún þekkir innan vallar.

„Maður áttar sig betur á því núna hvað er mikilvægt í lífinu. Þó ég missi nokkra mánuði úr í fótboltanum þá er það ekki 100 í hættunni miðað við að vilja losna við þetta. Heilsan er í fyrsta sæti.“

 

„Fótboltinn er eitt það mikilvægasta í mínu lífi núna en lífið er ekki búið þó svo maður missi nokkra mánuði úr boltanum. Mitt verkefni núna er að losna við þetta og þó svo að það sé pirrandi að fá þetta skítajob verður maður bara að klára það.“

 

„Ég mun svo reyna að æfa eins og ég get á meðan ég er í lyfjameðferðinni og er með rosalega sterkt bakland þar, bæði þjálfarana mína hjá Val, Eddu og Helenu og svo Silju Úlfars og ég veit að ég mun geta stutt mig við þær þegar á reynir,“ sagði Mist í samtali við Fotbolti.net.


Tengdar fréttir

Thelma Björk inn í landsliðshópinn

Thelma Björk Einarsdóttir kemur inn í stað fyrir Mist Edvardsdóttir í íslenska landsliðshópnum fyrir leik liðsins gegn Möltu á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×