Innlent

Reykjavík síðdegis: „Er þetta það sem konur mega eiga von á?“

Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason skrifar
Sveinbjörg greiðir atkvæði í dag.
Sveinbjörg greiðir atkvæði í dag. Vísir/Pjetur
„Ég hef það bara fínt,“ segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.  „Þetta er búið að vera ofboðslega góður dagur og skemmtilegar fimm vikur að baki. Þannig að nú ætlum við að fagna og uppskera með góðum vinum.“

Í dag vakti talsverða athygli skopmynd Gunnars Karlssonar í Fréttablaðinu, sem Sveinbjörg segist ekki hafa séð fyrr en í hádeginu.

„Mér finnst þetta mjög leiðinlegt að sjá mig teiknaða með þeim hætti sem er gert í fjölmiðlinum. Þetta var svona smá högg í hjartað. En þetta er svona spurning, er þetta það sem konur mega eiga von á ef þær skella sér út í pólítík? Og ætla að opna umræðu um mál sem brennur á borgarbúum? Það er ekki nema von að hinn þögli meirihluti stækki mjög ört, því að fólk hræðist nákvæmlega þetta.

En maður tekur að sér að vera skipstjóri á skipi og auðvitað kemur á það brotsjór og við siglum þær leiðir sem við ætluðum að fara. Ég lít á það þannig að nú séum við í innsiglingunni og við þurfum stuðning kjósenda til að sigla þessu skipi í höfn.

Við erum eini flokkurinn sem skipar konum í fjórum efstu sætunum, við erum að brjóta blað í sögu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þetta er bylmingshögg sem við fáum, þrátt fyrir að hafa reynt að tala málefnalega og aldrei farið með neitt illt í umræðuna.“

Hún segir að ef hún fengi aftur boðið um að leiða flokkinn í borgarstjórnarkosningunum hefði hún örugglega gert það.

„Vegna þess að ég er að bjóða mig fram, ég er ný í pólítík. Minn karakter er enn mjög ljós og skín í gegn, það hefur aldrei tekist að ala mann nógu mikið upp til að gangast undir hæl á einhverjum. Mínar skoðanir endurspeglast í persónunni minni og fyrir það stend ég, og það er það sem ég er að bjóða Reykvíkingum. Ég er að sækja um vinnu hjá ykkur í dag og ég er viss um að það eru margir sem vilja ráða mig í vinnu.“

Hún vill ekki gefa upp hversu mörgum fulltrúum hún vonast til að ná inn í kosningum.

„Þetta er í höndum kjósenda. Við sjáum bara til hvernig fer.“

Reykjavík síðdegis verður áfram á flakki um borgina í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×