Fótbolti

Ramos: Bale getur ráðið úrslitum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ramos reynir að verjast Bale á æfingu í Lissabon
Ramos reynir að verjast Bale á æfingu í Lissabon vísir/getty
Sergio Ramos segir að Gareth Bale, liðsfélagi sinn hjá spænska stórliðinu Real Madrid hafi hlegið að pressunni sem fylgdi kaupverðinu síðasta sumar.

Real Madrid gerði Bale að dýrasta knattspyrnumanni heims þegar liðið keypti hann frá Tottenham síðasta sumar og hann hefur nú þegar þakkað traustið.

Bale skoraði sigurmarkið í úrslitum spænska konungsbikarsins gegn Barcelona í vor og telur Sergio Ramos að Bale geti aftur ráðið úrslitum í kvöld þegar Real Madrid mætir Spánarmeisturum Atletico Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Lissabon í kvöld.

„Gareth hefur átt ótrúlegt fyrsta tímabil,“ sagði Ramos sem hefur hrifist mjög af því hvernig Bale hefur höndlað pressuna sem fylgir verðmiðanum háa.

„Þegar þú tekur saman pressuna sem fylgir kaupverðinu, að þurfa að aðlagast nýju landi og auðvitað nýrri deild með öðrum stíl þá hefur hann gert betur en nokkur þorði að vona.

„Meira að segja bestu leikmenn heims þurfa oft að nota fyrsta tímabilið til að aðlagast en Gareth hefur hlegið að því,“ sagði varnarmaðurinn öflugi sem trúir því að Bale geti ráðið úrslitum í kvöld.

„Hann hefur nú þegar sýnt hvað hann getur í úrslitaleikjum á þessari leiktíð. Markið hans sem vann Konungsbikarinn fyrir okkur geta bara einstakir leikmenn skorað.

„Það er kominn tími til að þetta félag vinni Meistaradeildina á nýjan leik. Það þarf öfluga liðsheild til að vinna gegn mjög góðu Atletico liði en Gareth hefur sýnt að hann hefur hæfileika til að vinna stóra leiki einn síns liðs,“ sagði Ramos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×