Fótbolti

Virðist vera til fullt af fólki sem skilur leikinn betur en ég

Jose Mourinho í fyrri leiknum á Spáni.
Jose Mourinho í fyrri leiknum á Spáni. vísir/afp
Chelsea hefur mátt þola mikla gagnrýni fyrir spilamennsku sína í síðustu tveim leikjum en þá lagðist liðið í vörn gegn Atletico og Liverpool.

Chelsea mætir Atletico í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en fyrri leiknum lyktaði með markalausu jafntefli.

"Það er enginn skortur á heimspekingum í fótbolta þessa dagana. Það virðist vera til fullt af fólki sem skilur leikinn betur en ég," sagði Jose Mourinho, stjóri Chelsea. spurður út í gagnrýnina á leik liðsins.

"Raunveruleikinn er alltaf raunveruleikinn. Lið sem verst ekki vel fær ekki mörg færi til þess að vinna. Lið sem skorar fá mörk en fær mörg á sig er alltaf í vandræðum. Lið sem er ekki með neitt jafnvægi í sínum leik er ekkert lið.

"Þegar Atletico er með boltann þá verðum við að verjast. Þegar við erum með boltann þá verðum við að sækja. Þetta er sá fótbolti sem ég þekki. Maður verður líka að aðlaga leiks síns liðs að andstæðingnum. Ef þú ert að mæta liði sem er öflugt í skyndisóknum þá er heimska að gefa þeim pláss fyrir aftan varnarlínuna."

John Terry mun spila með Chelsea í kvöld og verður fyrirliði liðsins. Hann meiddist í fyrri leiknum og átti ekki að spila meira í vetur.

Petr Cech æfði einnig óvænt með Chelsea í gær en hann mun ekki geta spilað í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×