Sport

Stelpurnar unnu brons á NM - níu í úrslitum í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku bronsstelpurnar.
Íslensku bronsstelpurnar. Mynd/Fésbókarsíða FSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í áhaldafimleiknum tryggði sér í gær bronsverðlaun á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum sem fer fram um páskahelgina í Halmstad í Svíþjóð.

Svíar urðu Norðurlandameistarar eftir yfirburðarsigur og Finnar fengu silfrið. Íslenska sveitin var með heildareinkunn upp á 142,050 stig en Svíar voru með 165,050 stig og Finnar fengu 148,550 stig í heildina.

Íslenska bronsliðið skipa þær Hildur Ólafsdóttir (Fylkir), Norma Dögg Róbertsdóttir, Thelma Rut Hermannsdóttir og Agnes Suto (allar í Gerplu) og Þórey Kristinsdóttir (Björk).

Agnes var með hæstu heildareinkunn íslenska liðsins (47,400) og náði sjöunda sætinu yfir bestu frammistöðu kvenna í keppninni en næstar henni úr íslenska liðinu komu þær Thelma Rut (9. sæti: 46,900) og Norma Dögg (10. sæti: 46,350).

Mótið heldur áfram í dag en Ísland á þá alls níu keppendur í úrslitum á einstökum áhöldum.

Hildur Ólafsdóttir og Norma Dögg Róbertsdóttir keppa í úrslitum í stökki í kvennaflokki, Agnes Suto komst í úrslit á jafnvægisslá og Thelma Rut Hermannsdóttir keppir í úrslitum í gólfæfingum. Gróttustelpan Nanna Guðmundsdóttir er síðan í úrslitum í stökki og á gólfi í stúlknaflokki.

Í karlaflokki keppa þeir Jón Sigurður Gunnarsson og Bjarki Ásgeirsson í úrslitum í hringum og Pálmi Rafn Steindórsson tryggði sér sæti í úrslitum í stökki. Hringirnir eru sterk grein hjá íslenskum fimleikamönnum því Eyþór Örn Baldursson er síðan í úrslitum í hringjum í drengjaflokki.

Íslenska kvennasveitin á verðlaunapallinum.Mynd/Fésbókarsíða FSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×