Íslenski boltinn

FH vann Fjölni eftir að lenda 2-0 undir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Gauti Emilsson raðar inn mörkum í Lengjubikarnum.
Kristján Gauti Emilsson raðar inn mörkum í Lengjubikarnum. Vísir/Arnþór
FH vann sjötta sigurinn í röð riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Fjölni, 3-2, í Egilshöll.

Fjölnismenn voru mun betri í fyrri hálfleik og voru 2-0 yfir þegar flautað var til leikhlés. Ragnar Leósson skoraði bæði mörkin, það fyrra á þriðju mínútu og það síðara á 37. mínútu, bæði eftir laglegan undirbúning Júlíusar Orra Óskarssonar.

FH-ingar gerðu þrefalda breytingu í hálfleik komu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn. Emil Pálsson minnkaði muninn í 2-1 á 55. mínútu úr vítaspyrnu. Gunnar Valur Gunnarsson braut á Emil í teignum og tók hann spyrnuna sjálfur.

Tíu mínútum síðar jafnaði Kristján Gauti Emilsson metin en þessi stórefnilegi framherji sem kom boltanum ekki í netið í Pepsi-deildinni síðasta sumar er nú búinn að skora sjö mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum.

Emil Pálsson skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark FH og tryggði sínum mönnum sigurinn fjórum mínútum síðar. Þrjú mörk á 24 mínútum og endurkoman fullkomnuð, 3-2.

Fjölnismenn sóttu stíft undir lokin og voru óheppnir að koma boltanum ekki í netið þegar mikill darraðadans varð uppi í vítateig FH-inga í uppbótartíma. Hafnfirðingarnir héldu þó út og lönduðu enn einum sigrinum í Lengjubikarnum.

FH er búið að vinna alla sex leiki sína í riðli 2 í Lengjubikarnum og er efst í riðlinum með 18 stig eða fullt hús. Fjölnismenn hafa nú lokið leik en uppskera þeirra eru sjö stig eftir sjö leiki. Þeir eru í fimmta sæti riðils 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×