Fótbolti

Hummels vill mæta Man. United, Barcelona eða Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dregið verður í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á morgun en þar verða átta af allra bestu liðum álfunnar í pottinum.

Mats Hummels, miðvörður Dortmund og þýska landsliðsins, er hvergi banginn og vill mæta Spánarmeisturunum, Englandsmeisturunum eða Chelsea.

Dortmund komst í átta liða úrslitin þrátt fyrir tap, 2-1, á heimavelli gegn Zenit frá Pétursborg í gærkvöldi en þýska liðið vann, samanlagt 5-4.

„Ég vil mæta liði sem ég hef ekki spilað við áður í átta liða úrslitunum. Kannski Manchester United, Barcelona eða Chelsea. Það skiptir samt ekki máli hvaða lið við fáum, það eru bara góð lið eftir í pottinum,“ segir Hummels á heimasíðu UEFA.

Miðvörðurinn öflugi er ánægður með að sínir menn hafi komist áfram en liðið glímir við meiðslavandræði auk þess sem það hikstaði aðeins á heimavelli í gærkvöldi.

„Við erum auðvitað ánægðir með að komast áfram. Það er erfitt að spila þegar þú veist að jafntefli og kannski tap kemur þér áfram. Zenit var mun betra í seinni leiknum en í þeim fyrri. Mér fannst Danny spila sérstaklega vel,“ segir Mats Hummels.


Tengdar fréttir

Grosskreutz: Við þurfum að fá stuðning en ekki stunur

Kevin Grosskreutz, miðjumaður Borussia Dortmund, var ekki ánægður með stuðninginn í gær þegar þýska liðið komst áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir tap á heimavelli á móti rússneska liðinu Zenit frá Sankti Pétursborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×