Íslenski boltinn

Gat áður aðeins talað um veikindin við lækna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingólfur Sigurðsson í hátíðarbúningi Vals.
Ingólfur Sigurðsson í hátíðarbúningi Vals. Mynd/Vísir
Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnumaðurinn ungi sem leikur með Þrótti R., er í opinskáu og einlægu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag þar sem hann opnar sig um geðsjúkdóm sem hann glímir við.

Ingólfur, sem er 21 árs gamall og hefur áður verið á mála hjá KR, Val, Heerenveen og Lyngby, þjáist af kvíðaröskun, sjúkdómi sem hann greindist með 15 ára gamall.

„Undanfarna mánuði hefur mér liðið mjög vel. Veikindin hafa ekkert látið á sér kræla. Á sama tíma hef ég verið mun opnari gagnvart mínum eigin tilfinningum en áður og um leið veikindunum. Lengi vel gat ég ekki hugsað mér að tala um þau við aðra en lækna, sálfræðinga og mína nánustu en núna þykir mér ekkert óþægilegt að standa berskjaldaður með þessum hætti,“ segir Ingólfur í viðtali við Orra Pál Ormarsson, blaðamann Morgunblaðsins.

Ingólfur hefur oft þurft að glíma við neikvæða umræðu um sig en hann kom í þrígang heim úr atvinnumennsku áður en hann varð tvítugur.

„Umræðan var þung eftir að ég kom heim og inntakið í henni einfalt: „Þessi gæi er bara hrokafullur og snarruglaður! Nú er hann alveg búinn!“ Ég fann fyrir einlægri ánægju hjá sumum með það að mér hefði mistekist. Ég lét þetta samt ekki trufla mig, hlakki í einhverjum yfir óförum mínum er það bara þeirra mál,“ segir Ingólfur.

Honum líður mun betur í dag og hlakkar til sumarsins með Þrótti í 1. deildinni en í viðtalinu fer hann yfir hvernig sjúkdómurinn hefur haft áhrif á líf hans sem og knattspyrnuferilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×