Fótbolti

Stjörnu-Dani tryggði Lokeren sigur gegn Ólafi Inga í bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexander Scholz í skallaeinvígi sumarið 2012.
Alexander Scholz í skallaeinvígi sumarið 2012. Vísir/Ernir
Ólafur Ingi Skúlason sat allan tímann á varamannabekknum þegar lið hans Zulte-Waregem tapaði fyrir Lokeren, 1-0, í úrslitaleik belgísku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld.

Eina mark leiksins skoraði Daninn Alexander Scholz sem átti frábært tímabil með Stjörnunni sumarið 2012 og var eftir það keyptur til belgíska liðsins.

Hann lék 21 leik í Pepsi-deildinni fyrir Stjörnuna 2012 og skoraði í þeim fimm mörk. Þá bætti hann við tveimur mörkum í bikarnum í fimm leikjum en Stjarnan tapaði úrslitaleiknum gegn KR í bikarnum þetta sumarið.

Scholz, sem er einn af nokkrum Dönum sem hafa spilað með Stjörnunni í efstu deild á undanförnum árum og staðið sig vel, hefur átt skínandi tímabil með Lokeren í Belgíu og verið þar nokkrum sinnum í liði umferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×