Sport

Hafþór Júlíus enn og aftur konungur steinanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Facebook-síða Hafþórs
Hafþór Júlíus Björnsson fór auðveldlega áfram í lokaúrslitin í keppninni um sterkasta mann heims. Hafþór rúllaði upp sínum riðli í undankeppninni með því að vinna fimm af sex keppnisgreinunum.

Hann vann öruggan sigur í síðustu greininni - Atlas steinunum. Hafþór kom öllum fimm steinunum sínum á réttan stað á einungis 21,33 sekúndum sem er magnaður árangur.

Hafþór lét sér ekki nægja að vinna sinn riðil með meira en tíu sekúndum heldur var þetta besti tími allra keppenda í mótinu. Þetta er þriðja árið í röð sem Hafþór Júlíus ber sigur úr býtum í greininni.

Hann fékk samtals 33,5 stig af 35 mögulegum í sínum riðli og fer áfram í úrslitin sem langstigahæsti keppandi undanúrslitanna. Úrslitin fara svo fram um helgina en keppt er í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Hér efst í fréttinni má hlusta á viðtal sem tekið var við Hafþór Júlíus í Reykjavík síðdegis nú fyrr í vikunni. Þar kemur fram að hann meti möguleika sína góða í keppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×