Ensku liðin Manchester City og Arsenal eiga gífurlega erfið verkefni fyrir höndum í seinni leikjum sínum í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.
Bæði lið töpuðu á heimavelli, 2-0, í fyrri leikjum sínum, City gegn Barcelona og Arsenal á móti Bayern München. Bæði lið misstu mann af velli. Það kemur sér reyndar verr fyrir Arsenal sem verður án markvarðarins Wojciech Szczesny.
Arsenal mætir Bayern í kvöld en Man. City ferðast til Katalóníu í næstu viku og mætir þar Barcelona í seinni leik liðanna.
Sagan er ekki með Arsenal og Man. City í liði því aðeins sex sinnum í 58 ára sögu Meistaradeildarinnar hefur lið komist áfram í útsláttarkeppninni eftir að tapa fyrri leiknum í einvíginu á heimavelli. Þetta kemur fram í grein á vefsíðunni ESPNFC.com.
Það gerðist síðast fyrir þremur árum þegar Inter tapaði fyrri leiknum heima gegn Bayern München, 1-0, í Mílanó en vann síðari leikinn á Allianz-vellinum, 3-2. Það er jafnframt í eina skiptið á síðustu 18 árum sem það hefur gerst.
Liðin sem sneru taflinu sér í hag:
1955/1956: AC Milan tapar fyrri leiknum heima gegn Saarbrücken í fyrstu umferð en vinnur 4-1 á útivelli.
1968/1969: Ajax tapar 3-1 heima fyrir Benfica í átta liða úrslitum en vinnur 3-1 í Portúgal og kemst áfram eftir umspilssleik sem notast var við í þá daga.
1979/1980: Nottingham Forest tapar 1-0 heima fyrir Dynamo Berlin í átta liða úrslitum en vinnur3-1 á útivelli og stendur uppi sem Evrópumeistari.
1993/1994: Steaua frá Búkarest tapar 2-1 heima fyrir Croatia Zagreb í fyrstu umferð keppninnar en vinnur, 3-2, á útivelli.
1995/1996: Ajax tapar fyrri leiknum í undanúrslitum gegn Panathinakos á heimavelli, 1-0, en vinnur, 3-0, á útivelli.
2010/2011: Inter tapar 1-0 fyrir Bayern München á heimavelli í 16 liða úrslitum en vinnur á útivelli, 3-2.
Fótbolti