Innlent

Auglýstu vændi og réðust á kaupanda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gísli Þór Gunnarsson, einn ákærðu.
Gísli Þór Gunnarsson, einn ákærðu. vísir/vilhelm
Fyrirtaka í máli þriggja aðila sem gefið er að sök að hafa sett inn auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað fór fram í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðilarnir þrír, Gísli Þór Gunnarsson, sem afplánar nú tveggja og hálfs árs dóm fyrir aðild sína að Stokkeyrarmálinu, Jón Einar Randversson og kona á þrítugsaldri, eru öll ákærð fyrir fjársvik og eru karlmennirnir tveir einnig ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Öll þrjú kröfðust þess að ákæru um fjársvik yrði vísað frá dómi.

Gísli Þór játaði á sig tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir en neitaði Jón Einar sök.

Karlmaður á fertugsaldri falaðist eftir vændi í kjölfar auglýsingar sem þremenningarnir birtu í janúar á síðasta ári. Konan rændi fjörutíu þúsund krónum af manninum í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var.

Ákærðu, Gísli Þór og Jón Einar, réðust í kjölfarið á manninn og hugðust ræna hann, er fram kemur í ákæru. Þá hafi Gísli Þór skorið manninn á háls, annars vegar frá vinstra kjálkabarði og skáhalt niður á við í átt að hálsæðum, og hins vegar þvert á hálsinn í átt að barkanum. Gísli Þór játaði sök í málinu en tók fram að Jón Einar hafi ekki vitað um tilætlanir sínar. Jón Einar neitaði sök.

Þá var Gísli Þór einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á karlmann með hníf í júlí í fyrra og veitt honum tíu sentimetra langan skurð á framhandlegg. Hann játaði sök.

Báðir höfnuðu bótakröfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×