Fótbolti

Ancelotti ætlar ekki að hvíla Ronaldo fyrir El Clasico

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo mun spila með Real Madrid í kvöld þegar liðið fær Schalke í heimsókn í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta.

Real Madrid er svo gott sem komið áfram eftir 6-1 útisigur í fyrri leiknum og framundan er El Clasico á móti Barcelona á sunnudaginn.

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, gaf það út á blaðamannafundi fyrir leikinn að Cristiano Ronaldo yrði í byrjunarliðinu í kvöld.

„Það er besti undirbúningurinn fyrir El Clasico að spila vel á móti Schalke, Við erum spenntir fyrir leiknum og ætlum að spila vel því þetta er Meistaradeildarleikur og við ætlum að reyna að halda liðinu áfram á þessu skriði," sagði Carlo Ancelotti.

Cristiano Ronaldo er með 11 mörk og 4 stoðsendingar í 6 leikjum í Meistaradeildinni á leiktíðinni en hann kom að fjórum af sex mörkum liðsins í fyrri leiknum á móti Schalke.

Leikur Real Madrid og Schalke hefst klukkan 19.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Upphitun Hjartar Hjartarsonar hefst klukkan 19.00 á Stöð 2 Sport og eftir leikinn verður farið yfir gang mála í báðum leikjum kvöldsins í Meistaramörkunum á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×